Katla og Sölvi

þriðjudagur, september 6

Fyrirmyndarfjölskyldan

Og þá er ég byrjuð að vinna á nýja staðnum, leggst bara ágætlega í mig, allir voðalega almennilegir og svona, sakna samt aðeins Västerås þar sem ég þekkti alla og vissi nöfn á börnum og barnabörnum allra hjúkkanna. Þetta verður örugglega mjög fínt þegar ég verð komin inní allt. Núna fæ ég að vera aumingi í nokkra daga áður en allt fer á fullt. Fyrsta vaktin er á mánudaginn og gengur vonandi vel.
Höfum verið svo heppin að hafa afann hér í 2 vikur, hann dyttaði að ýmsu og afrekuðum við feðginin meðal annars að fjarlægja allt veggfóður af stofunni (ég hélt þegar við fluttum inn að ég gæti lifað með þessu græna veggfóðri og blómaborðanum, en svo bara gat ég það ekki) og mála stofuna. Fyrir algera tilviljun var pabbi með málningarfötin í farangrinum.... Börnin fengu mjúka byrjun fyrstu vikurnar í skólanum, sem munaði gríðarlega miklu, sérstaklega fyrir Sölva. Hann er samt ánægður í leikskólanum, þetta er bara í nösunum á honum. Aðal vandamálið í leikskólanum er að þeir vinirnir tala íslensku allan daginn, virðast eiga erfitt með að breyta því.
Í dag var fyrsti dagurinn sem við vorum ein, vöknuðum snemma og tókum okkur góðan tíma í að vakna, Katla vill helst láta vekja sig kl. 6 vegna þess að hún er alltaf svo þreytt á morgnana, hljómar sem algjör mótsögn en þetta virkar ótrúlega vel og þá þarf ekkert að reka á eftir henni. Við vorum öll klædd, södd og sæl, burstuð og greidd kl. 7.10, settumst þá inní stofu og lásum eina sögu í rólegheitum, ótrúlega notalegt. Svo hjóluðum við Sölvi af stað í leikskólann, hann var ekkert yfir sig hrifinn af að fara þangað en lét sig samt hafa það án mikilla mótmæla. Katla var hins vegar skilin eftir ein heima, læsti svo á eftir sér rétt fyrir 8 og dreif sig í skólann. Ég hringdi til að minna hana á að fara af stað, og þá var hún að æfa sig á píanóið. Þetta eru fyrirmyndarbörn!!!
Ingi var hjá okkur um helgina, frábært að vera öll saman. Sölvi var reyndar veikur með hita og sagðist vera illt í munninum. Þegar ég kíkti uppí hann sá ég að það var ýmislegt að gerast þar; 2 lausar í neðri góm og farin að gægjast fullorðinstönn í skarðið sem tannlæknirinn skapaði.
Jæja, best að fara að koma sér í rúmið ef það á að halda uppi nýja lífinu sem tímanleg og skipulögð fjölskylda (ég er líka farin að versla inn fyrir alla vikuna í einu, fór daglega í búð áður fyrr og ákvað á staðnum hvað ætti að vera í matinn, liðin tíð...). Finnst þetta reyndar full sænskt hegðunarmynstur!
Maggi litli bróðir og verðandi faðir á afmæli í dag, afmælisknús frá okkur öllum!


Free Hit Counters
Free Counter