Katla og Sölvi

mánudagur, janúar 24

Jæja, vona að allir taki eftir nýja útlitinu, allt á íslensku og kommentin aðgengilegri.
Bragi, innilega takk fyrir hjálpina, mér tókst að komast í gegnum thetta á einhvern yfirnáttúrulegan hátt og hlýt að vera á góðri leið með að verða tölvunörd.
Enn ein vinnuvikan hafin, ég þurfti að fara með börnin sjálf í morgun, í fyrsta skipti síðan við fluttum út! Kom auðvitað of seint í vinnuna, biðu eftir mér fullt af börnum sem voru ólm í að láta rífa úr sér nefkirtlana og setja rör í litlu sætu hljóðhimnurnar. Ég hélt að það ætti að vera kappnóg að vakna kl. 6.30, konurnar í vinnunni áttu hins vegar ekki orð yfir því hvað ég fer seint á fætur. Þær vakna allar kl. 5.30 - 6, finnst svo gott að fá "tid för sig själv". Ég held að ég eyði frekar aðeins meiri tíma með sjálfri mér í draumalandinu. Sölvi (eða Sölvis eins og hann segist heita á sænsku, mér finnst það dáldið kúl, svona eins og Elvis) var reyndar alla leiðina í leikskólann að reyna að sannfæra mig um að hann væri ennþá veikur, ég sagði að hann væri búinn að vera veikur í 4 daga eins og hann ætlaði. "En ég ætla að vera veikur í 4 mánuði". Ansi lúnkinn drengurinn að koma sér inn í sænskan hugsunarhátt, best að vera sjukskriven sem mest og lengst.
Katla og Sölvi voru sem sagt í höfuðborginni um helgina, fyrst hjá Sigurði og Sunnu og síðan hjá Guðrúnu og Jóa. Þegar var verið að skutla þeim á seinni staðinn hafði Sölvi víst sagt með mæðutón: "Hvert er nú verið að senda okkur?" Ég verð að fara að taka mig á svo að mín verði ekki minnst í æviminningum Sölva sem "móðirin sem var sífellt fjarverandi". Þetta hafði samt gengið eins og í sögu, fyrir utan að þegar ég kom að sækja þau var Sölvi búinn að tæma sparibauk heimasætunnar og var með alla vasa fulla af peningum sem hann var ansi tregur að láta af hendi.
Nú erum við sem sagt bara þrjú í kotinu og reynum að láta þetta rúlla þangað til hún Rannveig nýja óperan okkar kemur. Ég er að reyna að innleiða nýtt tema í uppeldið og minni nú börnin sífellt á að við séum í sama liði og verðum ad standa saman, leiðbeina hvort öðru í stað þess að fara að rífast, því það geri fólk sem er saman í liði (þau eru nefninlega sífellt að rífast og slást). Heyrði þetta úr fjarska bera árangur í fyrsta skiptið í gær þegar rifrildi var í uppsiglingu, þá sagði Katla: "Heyrðu liðsmaður, eigum við að hafa það þannig að þú gerir þetta og ég geri hitt" (ég er auðvitað búin að gleyma um hvað málið snerist enda aukaatriði í frásögninni). Hitt er annað mál að ég verð væntanlega búin að skrifa bók innan skamms um þessa uppeldisaðferð og verð vinsæll gestur í ýmsum spjallþáttum eins og Oprah og Sirrý.
Ingi er á skíðum í Frakklandi, víst eintómt púl, ótroðnar brekkur og snjór uppá mitti. Hljómar ekki eins og ferð að mínu skapi, þar á allt að vera troðið (en sjálfsögðu ekkert harðfenni) og bar með sólstólum neðst í hverri brekku. Rætist örugglega allt í Idre fjäll!


Free Hit Counters
Free Counter