Vikuskýrslan
Allt í lukkunnar velstandi hérna megin, gengur þokkalega að halda öllu rúllandi. Katla er reyndar allt í einu komin í ansi margt utan skóla; íslensku, píanó, leikfimi, kirkjustarf(!) og kór. Að vísu þarf ekki að keyra hana í neitt nema píanóið þannig að þetta er í góðu lagi.
Við Sölvi byrjuðum helgina á því að fara með hann í klippingu. Drengurinn brosti út að eyrum en ég barðist við tárin á meðan ljósu lokkarnir hrundu í gólfið. Hann var búinn að grátbiðja mig um að fara með sig í klippingu og hárgreiðslukonan hefur greinilega verið sammála honum því hún sagði einfaldlega: "Strákar eiga ekki að vera með svona sítt hár." Nýja klippingin hefur gert það að verkum að hann hefur elst um mörg ár, kæmi mér ekki á óvart ef hann kæmi til mín og segðist vera að fara á stefnumót (sem hann mun auðvitað aldrei segja vegna þess að ég er og mun ávallt verða eina konan í lífi hans).
Eyddum laugardeginum í höfuðborginni í 6 ára afmæli Hlyns, heimsókn hjá Gunnu og Didda og enduðum á afskaplega skemmtilegu og kvenlegu sushi-boði hjá Guðrúnu. Svo á sunnudaginn var grill hjá Íslendingafélaginu hér í Uppsala; pylsur, kók, Einn tveir þrír fjórir fimm dimmalimm, Fram fram fylking og fleiri leikir sem kölluðu fram notalegar nostalgíutilfinningar hjá hinum fullorðnu.
Fyrsta vaktin mín var í gær, gekk bara vonum framar og ekkert hræðilegt kom uppá. Var svo ansi "heppin" að fá tvo áhugasama læknanema með mér á vaktina sem eltu mig á röndum og gengu alltaf nákvæmlega tveimur skrefum fyrir aftan mig. Strunsaði af stað til að ná mér í kaffibolla (reyndar te í mínu tilfelli, eins og alþjóð veit drekk ég ekki kaffi, en er þetta ekki bara orðatiltæki, "að fá sér kaffi"?) með drengina í eftirdragi og lá við stórslysi á bæði læknanemum og mér sjálfri þegar ég snarstoppaði við kaffivélina.
Börnin fengu að vera hjá Össa og Gullu, neyddist til að níðast á góðmennsku þeirra vegna aðstæðna núna áður en nýja barnapían kemur. Ég hringdi svo til að kanna stöðuna í gærkvöldi, frúin varð fyrir svörum og hélt því fram að drengirnir lægju háttaðir og burstaðir, annar í rúminu og hinn á dýnu á gólfinu, og spjölluðu saman í hálfum hljóðum um tunglið og himingeiminn. Detti mér allar dauðar sem lifandi lýs úr höfði, segi ég nú bara.
<< Home