Katla og Sölvi

laugardagur, janúar 29

Laugardagur í leti

Loksins komin helgi, "gimmí fæ" sagði Sölvi á föstudaginn þegar ég sótti hann og við slógum saman lófunum, hann var svo feginn að það væri komið helgarfrí.
Vikan hefur bara gengið furðu vel þrátt fyrir að við séum au pair laus, reyndar þurfti ég að losa mig við vakt sem ég átti á fimmtudaginn. Krakkarnir hafa annars verið ótrúlega dugleg að vakna á morgnana, sérstaklega Katla sem lengi vel hefur átt verulega erfitt með að drattast á fætur. Svo er hún búin að uppgötva morgunmatinn í skólanum sem er víst bara talsvert betri en heima hjá henni. Nadia vinkona hennar er yfirleitt sótt seint og þær á fullu að leika þegar ég kem þannig að hún er hæstánægð með ástandið. Sölvi er ekki alveg jafn ánægður, hann er stundum kominn fyrstur á morgnana, reyndar er Melissa oft komin snemma (öðru nafni Litla Krúttið, þar til það kom í ljós hvað hún var frek, þá var hún ekkert krúttleg lengur). Síðan þegar ég kem að sækja hann er oftast búið að sameina deildirnar og hann situr með einhverjum smábörnum, alveg grautfúll yfir því hvað ég kem seint. Hann vill alltaf fara með eitthvað dót í skólann þótt ég hafi reynt að koma í veg fyrir það. Við ákváðum að fá það á hreint hvað væri leyfilegt og ég spurði fóstruna í gær. Sagði honum síðan frá því eins og satt var að það mætti ekki, en sumir krakkar væru svo óþekkir og kæmu samt með dót. "Já, en ég er sumir krakkar!"
Við höfum ekki gert mikið af viti það sem af er helgarinnar, við Sölvi höfum reyndar skotist aðeins á bílnum, fórum loks með jólatréð í endurvinnsluna og með bílinn í þvott. Annars höfum við verið miklir innipúkar, Katla hefur ekki einu sinni stungið nefinu út. Kórónuðum daginn með því að ná í McDonalds (hvað er dásamlegra?) og ætlum nú að fara að gæða okkur á Prins Póló!


Free Hit Counters
Free Counter