Ein í kotinu
Jæja, þá er ég mætt aftur á svæðið eftir 2 frábærar vikur á Íslandi.
Það var yndislegt að setjast uppí vél eftir annasama daga á undan, ég asnaðist meira að segja til að vinna til hádegis daginn sem við fórum (hvað var ég að spá?) en þetta gekk nú allt saman vel, reyndar hafði leigubílsstjórinn að orði að þetta væri í fyrsta skipti sem flugfarþegi sem hann átti að keyra út á völl væri ekki kominn heim úr vinnunni þegar leigubíllinn kom! Kvöldið áður hafði ég farið ásamt meðeigendum að sækja "snekkjuna" í frábæru veðri, óskaplega gaman og lentum í ýmsum ævintýrum. Keyptum bátinn af fullkomnasta pari norðan Alpafjalla sem stóðu með áhyggjusvip á bryggjunni og horfðu á eftir okkur þeysast af stað. Vorum meðal annars stöðvuð af strandgæslunni fyrir of hraðann akstur en brostum okkar blíðasta og losnuðum á einhvern undraverðan hátt við sekt. Síðan kom að því að fara gegnum Slussen og fylgdumst spennt og örlítið stressuð með því hvernig yfirborð vatnsins minnkaði á meðan við héldum dauðahaldi í þar til gerð reipi, áttum svo að bruna af stað út í Eystrasaltið en þá fór báturinn ekki í gang. Hann fer víst ekki í gang í hlutlausum.... Ferðin tók mun lengri tíma en gert hafði verið ráð fyrir og klukkan farin að nálgast miðnætti þegar komið var á áfangastað, kom þá í ljós að við komumst ekki út af svæðinu vegna rammgerðrar gaddavírsgirðingar og skorts á lykli sem átti að hafa verið skilinn eftir í bláum hanska á ákveðnum stað - bláa höndin teygir sig víða. Endaði með því að það var ákveðið að klifra yfir og þar sem ég stóð þarna með lappirnar sitt hvoru megin girðingar standandi í lófum félaga minna (mjög svo traustum tek ég fram) með gaddavírinn í klofinu flaug gegnum huga minn: þetta fer aldrei vel. En það gerði það samt og það var ekki mér að þakka. Þá átti eftir að keyra tilbaka, í stuttu máli var ég komin heim kl. 01.30 og átti þá eftir að pakka (aftur: Hvað var ég að spá?). Kalla það gott að hafa náð 3 klst svefni.
Höfðum það afskaplega notalegt á Íslandi, Sölvi byrjaði á Sæborg gamla leikskólanum sínum í síðustu viku og fannst svakalegt fjör að hitta gömlu vinina. Katla hitti líka gömlu vinkonurnar, fór reyndar í Kaldársel í morgun með einni þeirra, verður í 5 daga og hlakkaði óstjórnlega til.
Við Ingi náðum að afreka 2 brúðkaup, veiðiferð, útskrift hjá Braga Sveins ofurséní (hæsta meðaleinkunn í tölvunarverkfræði frá upphafi og tvöfaldur dúx, need I say more?), fullt af frábærum matarboðum og svo var það auðvitað ráðstefnan. Það komu 6 læknar af minni klinik á ráðstefnuna, fengu geggjað veður og við náðum að gera fullt af skemmtilegheitum með þeim. Við buðum þeim bæði heim til mömmu og pabba og einnig í fordrykk á Hjarðarhagann, þá komu líka Össi og Gulla og klinikchefinn í Uppsala, helst til seint að fara að smjaðra fyrir honum þar sem ég er þegar búin að fá vinnuna en átti þó eftir að semja um laun, vona bara að honum hafi þótt ídýfan mín góð...
Óneitanlega mjög skrýtið að vera ein í húsinu, veit ekki alveg hvernig ég á að vera, læddist á fætur í morgun eins og venjulega til að vekja engan, var líklega ekki þörf á því. Annars stefni ég að því að afreka margt og mikið í einverunni og ætlaði að taka fyrsta daginn með trukki.
Afrek dagsins:
- í vinnunni sinna eina inniliggjandi sjúklingnum, gera 1 tracheotomiu fyrir þá sem vita hvað það er, sjá 3 akút sjúklinga eftir hádegi. Ókei, ekki mikið til að hreykja sér af en það er ekki mér að kenna að það eru sumarleyfi og öll starfsemi dregin niður í nánast ekki neitt.
- ætlaði að sækja nýja bílinn - kom því miður of seint og bílasalinn vildi bóka nýjan tíma til að ná að kenna mér ljóskunni á alla takkana
- versla í galtóman ísskápinn (ég tók með mér eftirréttinn úr flugvélinni í gær til að eiga eitthvað í morgunmat, frekar dapurt)
- kaupa sláttuvél
- ætlaði að slá blettinn - gekk ekki vegna úrhellisrigningar
- ætlaði út að hlaupa - gekk ekki vegna sömu ástæðu og ofan, allir vita að það er stórhættulegt að hlaupa í rigningu, maður getur hreinlega forskalast eða eitthvað þaðan af verra
- lyfti lóðum á meðan horft var á Frasier, hinir tveir örmjóu og einmana vöðvaþræðir sem væri kannski hægt að finna við krufningu í upphandleggjunum fengu vægt sjokk
Á morgun verður hins vegar ekki gert neitt af viti þar sem ég er á leið á tónleika með gömlu átrúnaðargoðunum í Duran Duran!
<< Home