Katla og Sölvi

miðvikudagur, júní 8

Á heimleið

Hér líða nánast ár og dagar milli blogga, alls ekki nógu gott frú Sigríður!
Nú er aldeilis farið að styttast í heimferð, erum að byrja að pakka í kvöld, hef ekki tíma á morgun því þá er ég að fara ásamt meðeigendum að sækja nýja bátinn. Já, ég sagði bátinn! Við hjónin gerðum stórar fjárfestingar um helgina, gerðum okkur lítið fyrir og keyptum bæði bíl og bát! Báturinn er 18 feta mótorbátur sem við skelltum okkur á í félagi við Sunnu og Sigurð Yngva og Alfreð og Björk. Munum aldeilis taka okkur vel út í sumar þeysandi um skerjagarðinn. Svo ákváðum við að skipta um bíl sisvona, völdum geysifagran Volvo V70. Á þessu heimili gerast hlutirnir hratt ef einhver var ekki búinn að átta sig á því.
Við erum sem sagt á leið heim á föstudaginn, ég trúi því varla því ég á eftir að gera ótal hluti, er með allt niðrum mig í vinnunni og það sem mestu máli skiptir er að ég á eftir að verða brún, mjó og kaupa fullt af nýjum fötum!
Hér hafa verið góðir gestir undanfarið, pabbi um þar síðustu helgi og svo Maggi og Þóra. Ég var reyndar ekki mikið við þegar pabbi var, fór í bráðskemmtilegan og kvenlegan saumaklúbb hjá Sunnu á föstudagskvöldið og var svo á vakt frá laugardagsmorgni til sunnudagsmorguns. Held samt að pabba hafi verið nokkuð sama, stutt þangað til við komum heim og svo er líka svo gaman að fá að ærslast með afakrökkunum án þess að mamman sé að skipta sér af. Við keyrðum svo afann út á völl á sunnudaginn og enduðum í svaka bíltúr sem átti reyndar bara að vera stutt skemmtiferð til Fjällnora, en þar sem eina kortið í bílnum var það sem mamma skildi eftir og var frá 1978 tókst fremur erfiðlega að finna staðinn. Hófst þó að lokum og okkur leist mjög vel á eins og áður fyrr en mikið var ég hissa að sjá að það sem ég upplifði alltaf sem gríðarsvæði sem flenniströnd eins langt og augað eygði, var aðeins smá grasblettur og smávegis strandarbútur. Förum alveg örugglega þangað aftur og sólum okkur þegar þannig stendur á.
Afinn stóð undir væntingum og fjarlægði hjálpardekkin án þess að hika, kom auðvitað á daginn að pilturinn þurfti ekkert á þeim að halda, hjólar hér um allt á fleygiferð. Hann sagði við mig um daginn uppúr þurru: "mamma hvað á ég eiginlega að hafa þennan stein í eyranu í mörg ár?" Verðandi háls-nef-og eyrnalæknirinn tók andköf, og kannaði málið akút, mikið rétt, í hlustinni var steinn. "Sko, fyrst prófaði Þorri og hann festist ekki, svo prófaði ég og hann festist! Og svo gleymdi ég honum!" Náðist þó auðveldlega út enda fagmanneskja að verki. Don´t try this at home!
Síðustu gestirnir í þessari lotu voru svo Maggi bró og frú Þóra, þau afrekuðu margt og mikið í ferðinni bæði ein og með okkur, fórum saman til Skokloster, Björklinge og auðvitað Bälinge þar sem við systkinin horfðum með nostalgíusvip á hvern einasta stein. Löbbuðum bæinn þveran og endilangan og sáum varla lifandi veru, einhvern veginn var þetta fjörugri staður í minningunni. Og þar sem ég er öll í nostalgíunni þá keypti ég disk með Carolu, "handa Kötlu", ég held svei mér þá að hún hafi verið mitt fyrsta átrúnaðargoð. Katla er að minnsta kosti hæstánægð, liggur uppí rúmi í þessum töluðu orðum og syngur hástöfum með Främling og fleiri úrvalslögum.


Free Hit Counters
Free Counter