Hótunarblogg!
Jæja, nú held ég að sumarið sé komið og ekki seinna vænna að fjárfesta í almennilegu grilli. Þótt það falli vel inní sænsku ímyndina að pukrast með vesælt kolagrill þá nenni ég þessu ómögulega lengur og mun draga ástkæran eiginmann (og Visa-kortið hans) í innkaupaleiðangur um helgina.
Við höfum haft það fínt síðustu daga, ég var á vakt í gær og er dauðfegin að vera komin heim eftir að hafa ekki séð til sólar í 36 klst. Þetta eru reyndar oftast rólegar vaktir, hef verið á vakt síðustu 2 þriðjudaga og hef í bæði skiptin náð að horfa á Desperate housewives frá upphafi til enda!
Sölvi fór á Junibacken í Stokkhólmi í dag með leikskólanum, fékk að fara bæði í lest og strætó, var mjög ánægður með þetta allt saman.
Krakkarnir eru alltaf jafn ánægð á nýja staðnum, núna er auðvitað komið svo gott veður að þau eru nánast alltaf úti, dregin með valdi inn í kvöldmat. Höfum nánast ekkert þurft að beita nýju reglunni: Ekkert vídeógláp fyrir klukkan 5. Ekki leika þau sér þó mikið saman og slást hressilega annað slagið. Við erum með nýja tilraun í uppeldinu (enn og aftur!), núna eru fjölskyldufundir á hverju kvöldi þar sem við byrjum á því að segja eitthvað gott hvert um annað (ef einhver þarf að kasta upp vegna væmni er ágætis tækifæri núna) og síðan ræðum við hvað má betur fara. Í fyrrakvöld þegar fyrsti fundurinn var haldinn sagðist Sölvi sko alveg vita hvað hann ætlaði að segja gott: "mamma er alltaf svo snyrtileg" var fyrsta athugasemdin og ég ljómaði eins og sól í heiði. Ég var þó fljót niður á jörðina aftur þegar næsta athugasemd kom: "Katla er aldrei að meiða mig." Þar sem þetta er helber lygi var ekki annað hægt en að velta því fyrir sér hvort hitt hefði ekki verið eintómt bull og smjaður líka!
Helgin var ósköp róleg hjá okkur, Sigurður og Sunna komu reyndar í mat á laugardaginn og gekk það prýðilega, að vísu þurfti ég að senda þau í búð á leiðinni til að kaupa mango chutney. Aðstoðarkokkurinn Sölvi Guðmundsson var nefninlega sendur til nágrannana til að láta húsbóndann opna krukku fyrir mig, en það fór ekki betur en svo að hann týndi henni á leiðinni. Þessu fylgdu langar útskýringar á áhugaverðum skordýrum sem hefðu orðið á vegi hans og að hann hefði í sakleysi sínu lagt krukkuna frá sér en gat engan vegin munað hvar. Hún fannst ekki þrátt fyrir ítarlega leit.
Á sunnudaginn voru börnin vart sýnileg, Katla tilkynnti um leið og hún vaknaði að hún ætlaði að vera með Guðrúnu Söru allan daginn. Ég spurði hvort hún vildi ekki frekar vera með mér en sú hugmynd féll í grýttan jarðveg, sagðist alltaf geta verið með mér. Það er nú reyndar ekki alveg sannleikanum samkvæmt, hins vegar er hún með Guðrúnu að minnsta kosti 12 klst á dag! Sölvi var líka þotinn til vina sinna og ég stóð eftir eins og illa gerður hlutur og vissi ekki hvað ég átti að gera af mér. Leið eins og gamalli konu sem er ein eftir í þöglu húsi, börnin of önnum kafin til að koma í heimsókn, gekk á milli glugganna og fylgdist með lífinu fyrir utan. Gulla dreif mig svo í göngutúr um hverfið og ég get svarið það, ég var með harðsperrur á eftir! Hraðinn á frú Guðlaugu var þvílíkur, greinilegt að líkamlegt ásigkomulag mitt er í sögulegu lágmarki!
Komst að því í gær að bíllinn er í akstursbanni... Hafði eitthvað misskilið þetta með skoðun á bílnum, hélt að það væri í maí en reyndist hafa verið í febrúar... Ég má sem sagt alls ekki hreyfa bílinn nema til að keyra hann í skoðun en fékk ekki tíma fyrr en í næstu viku, AARRRG!
Hvernig væri svo að fara að taka sig á í kommentunum kæru lesendur? Ég er að hugsa um að fara að beita þeirri aðferð að skrifa ekkert fyrr en komin eru amk 3 komment á síðustu færslu, og þetta er hótun!
<< Home