Páskarnir búnir og vorið komið (burtséð frá því að það var -10 á mælinum í morgun, algjört aukaatriði). Nú er snjórinn nánast horfinn, get ekki sagt að ég sjái eftir honum. Höfðum það verulega gott um páskana. Ingi var hérna fram á þriðjudag og vid fjölskyldan nutum þess að eiga góðar stundir saman. Fórum eins og áður hefur komið fram til Guðrúnar og Jóa á laugardaginn í dýrindis páskamáltíð og páskaeggjaleit. Dvöldum þar fram eftir degi, strákarnir inní stofu að tala um Bobby Fischer og við stelpurnar úti á palli að tala um þá. Þegar við vorum búnar að vefja um okkur teppi var bara virkilega notalegt, sérstaklega þegar maður var kominn með hvítvínsglas í hönd.
Talandi um paranoid scizophren fyrrverandi skáksnillinga. Er þetta virkilega það sem við viljum? Ég kveið nú hálfpartinn fyrir því að fara í vinnuna eftir helgina og þurfa að verja þessa ákvörðun Íslendinga. Verdur fróðlegt að fylgjast með framgangi mála hjá blessuðum kallinum honum Bobby. Hvert af eftirtöldu gerir hann fyrst: a) grýtir Davíd Oddsson med eggjum, b) nefbrýtur góðvin sinn Sæma rokk, c) ræðst inn á árshátíð Samtaka gyðinga á Íslandi og gengur berserksgang, d) allt ofanskráð.
Sunnudagurinn byrjaði á hefðbundinn hátt, páskaegg mölvuð og vídeómaraþon. Sölvi tók sig svo til og klippti á sér hárið, toppurinn af öðru megin og svo snyrt svolítið hér og þar. Ég spurði hvort honum hefði fundist hárið á sér ljótt. "Nei, þetta var til þess að krakkarnir í leikskólanum verði hissa". Ætli hann verði týpan sem hoppar fram af svölum og kveikir í skónum sínum til að vekja á sér athygli? Svo var okkur boðið í mat til Harðar og Tótu í Stokkhólmi, sú máltíð var sko ekkert slor, gæsalifrarpaté og fyllt lambalæri. Þau eru svo miklir gestgjafar að það endaði með að við gistum öll, fórum í pottinn og drukkum meira rauðvín. Ekki slæmt. Vöknuðum daginn eftir og skelltum okkur á Skansinn ásamt vinum okkar, börnin fóru á hestbak og í ýmis tæki, þurfum augljóslega að fara þarna aftur þegar allt er orðið grænt.
Rannveig var með 19 ára frænku sína í heimsókn yfir páskana. Sölvi var að hjálpa Rannveigu að leggja á borð en leist ekkert á hvað það yrði þröngt. "Hvar á amma þín að sitja?" Dáldið neyðarlegt en blessuð stúlkan hafði þó húmor fyrir þessu.
Á morgun er síðasti dagurinn hjá börnunum, fá að vera í fríi á föstudaginn og svo byrja þessi grey á nýjum stöðum á mánudaginn. Katla er þá búin að vera í 1-A (Melaskóli), 1-B (Lövhagsskolan) og 1-C (Stenhagen skolan). Hljómar hræðilega, eins og við séum hjólhýsahyski sífellt flytjandi okkur úr stað eða að barnið geti bara ekki lært að lesa og sé látin endurtaka 1. bekk í sífellu. Hún er nú samt ennþá með sínum jafnöldrum...
Við byrjuðum að pakka í gær, enda ekki seinna vænna. Fáum flutningabíl á laugardaginn og munum halda uppá 35 ára afmaeli húsbóndans með því að bera kassa. Allir sjálfboðaliðar velkomnir!
<< Home