Katla og Sölvi

fimmtudagur, febrúar 24

Í gær var ég í fríi í vinnunni, það var helv.. fínt þótt þetta hafi verið nauðungarfrí, það er að segja ég var þvinguð til að taka mér frí vegna ofmönnunnar á deildinni. Við kúrðum þess vegna aðeins lengur, Katla þurfti ekki að mæta fyrr en kl. 9 enda skógardagur hjá henni. Þegar við liggjum þarna og höfum það notalegt segir hún allt í einu: "Mamma, hvernig geturðu verið með svona rosalega stóran rass, þú sem ert svo falleg?" Ehemm, hvernig svarar maður svona... takk.. eða eitthvað... Minnir mig á þegar hún var aðeins yngri og horfði á mig með aðdáun um leið og hún sagði: "Mamma, mig langar svo að fá svona blátt undir augun eins og þú ert með!" Það er ekki hver sem er sem nær þvílíkum hæðum í baugasöfnun að dáðst sé að!
Ég fór svo í klippingu og er agalega fín um hárið, aðeins dekkri en ég hef áður verið og ánægð með það. Eina sem ég var ekki ánægð með var verðið, það var himinhátt. Mun líklega leyfa hárinu að vaxa að vild fram að næstu Íslandsferð.
Sölvi er eins og allir vita karlmaður í húð og hár (það var byrjuð að vera táfýla af honum löngu áður en hann eignaðist sína fyrstu skó). Hann var að lesa Bamse (hvað annað?) í gær, sögu þar sem Lille Skutt ásamt fleirum voru að keppa í skíðagöngu. Hann var yfir sig hneykslaður á því að kærastan hans Lille Skutt væri ekki að horfa á, og svo sagði hann: "Veistu mamma, kærustur eiga að vera þar sem menn geta hitt þær!" Rétt hjá þér vinur, og ef þær hlýða ekki þá bara dregur maður þær á hárinu!


Free Hit Counters
Free Counter