Mánudagur til mæðu
Mánudagarnir eru alltaf erfiðir eftir sukk helgarinnar (það er að segja nammiát og sjónvarpsgláp). Fórum reyndar aðeins út í gær! Löbbuðum 200 metra yfir á tennisvöll sem búið er að breyta í skautasvell þessa dagana og Katla sýndi snilli sína á ísnum, greinilega upprennandi skautadrottning. Við Sölvi eigum enga skauta og erum að verða úrkula vonar um að það komi almennilegur snjór. Stóð nefninlega til að æfa drenginn fyrir skíðaferðina miklu en eins og staðan er núna lítur út fyrir að frumraunin verði í Idre.
Svo var erfitt að vakna í morgun, við Katla fussuðum og sveiuðum í kór yfir því að helgarnar séu bara 2 dagar, hvaða "snillingi" datt það í hug? Fyrsta sem Sölvi sagði var, "ég fer sko EKKI í skólann í dag", en ég gat glatt hann með því að leikskólinn væri lokaður og hann væri að fara í pössun til Ingvars frænda síns. Drengurinn kom alveg af fjöllum og þóttist nú ekkert kannast við það fólk, en dreif sig samt á fætur, setti Mannshvolpinn (sk. kramdjur af hlébarðategund) í bakpokann sinn og ákvað einnig að taka með sér 2 epli í nesti, greinilega ekki treyst því að fá neitt að borða hjá þessu ókunnuga fólki. Svo vildi hann endilega taka með sér strigaskó til öryggis. Það var sem sagt Anna kona Péturs Vignis sem miskunnaði sig yfir okkur og hafði Sölva til hádegis, svo hætti ég snemma og sótti hann, ætti eiginlega alltaf að vera stuttur dagur á mánudögum svo að þetta verði ekki of jobbigt! Þetta hafði gengið bara vel, þegar ég kom var hann að kenna litla frænda sínum að hoppa rosahopp og öskra hátt, nauðsynlegt fyrir unga drengi að kunna það!
Bragi (lillbrorsan) á afmæli í dag, 23 ára! Knús frá öllum á Bildhuggar!
<< Home