Tjena!
Helgin var með rólegasta móti, eins og reyndar flestar aðrar. Á laugardaginn fór Katla í heimsókn til Nödiu, við Sölvi fylgdum henni og var boðið inn en þá harðneitaði drengurinn, gat ekki hugsað sér að fara inn því að það væri svo skrýtin lykt heima hjá henni! Rannveig fór til Stokkhólms að hitta íslenskar stelpur og við hin fórum á McDonalds (aftur!) sem var auðvitað hápunktur helgarinnar. Í gær fórum við svo í sund í Sala, þar er lítið ævintýrabað með öldum og rennibrautum. Fórum með Sænsku Vinunum (eigum bara eina), það eru Fredrik sem vinnur með mér og fjölskylda, þau eiga 2 stelpur sem eru jafngamlar Sölva og Kötlu. Endaði síðan með að þau komu í mat, voða gaman. Hegðuðu sér eins og almennilegir Svíar og voru farin uppúr kl. 19! Fjölskyldufaðirinn varð fyrir þónokkrum árásum af hendi Sölva og þeir skylmuðust eins og sannar hetjur. Sölvi talar greinilega sænsku þegar hann vill, "Du är DÖD!" hljómaði hér um allt. Hann er líka farinn að blanda ansi mikið, heyrast stundum setningar eins og "kann ég fá meira mjólk" og "sjáðu den". Svo er auðvitað romsan sem hann fer með við matarborðið: "Maten är på boret, händena i knät, vassego å ät."
Annars lítið um tíðindi, pabbi kemur á morgun, mikil tilhlökkun! Hjólið mitt streikaði aftur í morgun, verð eiginlega að fara með það í viðgerð en læt kannski pabba kíkja á það fyrst....
Auglýsi eftir kommentum, ekki hika við að tjá ykkur. Annars held ég að enginn lesi þetta.
Katla segir: Hæ allir og bless!
<< Home