Katla og Sölvi

mánudagur, febrúar 14

Ég er svo agalega ánægð með þetta blogg og með sjálfa mig að hafa getað komið þessu af stað. Þessu áttuð þið ekki von á, ég er greinilega ekki eins vitlaus og ég lít út fyrir að vera! Mitt alter-ego sem bloggari hefur líka gert það að verkum að ég hef yngst um heilan helling, mér líður eins og ég sé 10 árum yngri en raunaldur og hrukkur segja til um!
Engar stórfréttir héðan annað en óveður á sænskan mælikvarða, snjóar og snjóar.
Ingi var hjá okkur um helgina og það var auðvitad æðislegt. Ég var reyndar á vakt á laugardaginn sem var hálf mislukkað. Þau hin áttu hins vegar quality time saman á meðan. Ég náði þó að horfa á fyrstu undankeppnina í söngvakeppninni. Já, það eru sko 5 undankeppnir og 1 aðalkeppni fyrir Eurovision, ekkert verið að velja einhverja Selmu Björns hér. Frekar dapurleg lög svo ekki sé meira sagt, vonandi lagast það þegar á líður.
Í gær fórum við svo í 4 ára afmæli til Kötlu litlu (sem heitir reyndar Katla Sigurðardóttir Snædal) í Stokkhólmi og fórum þaðan södd og sæl. Vel lukkað í alla staði nema að húsbóndinn harðneitaði að spila fyrir okkur á saxófóninn og voru það óneitanlega mikil vonbrigði.
Á föstudaginn fór Sölvi til tannlæknis sem gekk í alla staði mjög vel (hann var farinn að gapa áður en hann komst uppí stólinn) þangað til það kom í ljós að það þarf að draga úr blessuðu barninu tönn. Eins og glöggir menn hafa kannski tekið eftir er önnur framtönnin uppi grá og guggin eftir að hann datt á hana fyrir lifandi löngu. Nú er komin einhver fistilmyndun út í góminn og þá þarf víst að taka hana til að fullorðinstönnin verði í lagi. Við fengum nýjan tíma fyrir það og þá fær hann víst róandi litla skinnið. Það var tekin mynd og komu í ljós þessar fínu og STÓRU fullorðinstennur, hann verður víst tenntur eins og móðir sín og systir þar sem tennurnar komast engan veginn fyrir í þessum annars nettu stúlkum, önnur með framtennurnar hálfa leið út og hin með augntennurnar.
Nú eru börnin farin að sofa, búin að borða falukorv (namminamm) og síðan lesið fyrir þau Bamse-blað, sænskara getur það varla orðið!


Free Hit Counters
Free Counter