Katla og Sölvi

föstudagur, mars 25

Föstudagurinn langi

Rétt upp hönd allir sem halda að það sé í lagi að fara í sjálfvirka bílaþvottastöð með tengdamömmubox á þakinu. Já, það hélt ég líka. En þið hafið rangt fyrir ykkur. Það er ekki í lagi. Boxið mun flettast af þakinu, brotna og rispa bílinn á leið sinni niður. Hvaðan hef ég þessa vitneskju? Tja, það verður ekki gefið upp.
Við erum komin í mikið sumarskap, snjórinn óðum að bráðna og farið að hlýna verulega. Gætum hæglega setið úti á palli núna og haft það notalegt, að vísu líklega klædd úlpum, en þar sem við erum innipúkar af guðs náð þá er kemur það ekki að sök. Ingi og krakkarnir fóru í morgun út á Björnö í göngutúr og kaffihúsaferð, vatnið var ennþá ísilagt en styttist örugglega í að hægt verði að fara á ströndina. Hér eru allir komnir í langþráð páskafrí, nema reyndar ég sem er á vakt þar til í fyrramálið. Katla var kvödd með virktum í gær, síðasti skóladagurinn hennar í Lövhagsskolan. Hún verður reyndar á fritids í næstu viku en það er enginn skóli þá. Hún hélt uppá afmælið sitt síðasta föstudag, nokkrar stelpur og hörkufjör. Við áttum svo bara rólega helgi, fórum reyndar til Uppsala á laugardaginn og skiluðum Guðrúnu Söru sem gisti eftir afmælið. Notuðum tækifærið og skoðuðum bæði skólann og leikskólann, reyndar bara að utan, en okkur leist vel á. Okkur til ánægju stóð flutningabíll fyrir utan húsið okkar, fer heldur betur að styttast í flutningana. Svo á sunnudaginn fórum við til Stokkhólms og fjárfestum í skrifborði handa heimasætunni.
Ingi kom í gær, með páskaegg og harðfisk, namminamm! Við förum á morgun til Guðrúnar og Jóa í páskahúllumhæ. Annars ekki mikið planað. Kannski maður komi því í verk að pakka í nokkra kassa. Og þó, mér finnst best að gera allt á síðustu stundu, helst nóttina fyrir.


Free Hit Counters
Free Counter