Skíðaferðin
Jæja, kominn tími til að gera upp skíðaferðina sem var afskaplega vel heppnuð í alla staði. Við bjuggum í frábærum fjallakofa sem uppfyllti allar okkar þarfir. Byrjuðum auðvitað á því að leysa "Stóra herbergismálið" á farsælan hátt; við fengum besta herbergið og hinir slógust útá palli. Húsið var í sjálfri skíðabrekkunni, var hægt að setja á sig skíðin við útidyrnar og skíða síðan heim að degi loknum, óskaplega mikill kostur fannst okkur. Þetta var mjög góður hópur af fólki sem þekktist misvel í upphafi ferðar en skemmti sér konunglega. Börnin höfðu félagsskap hvort af öðru og af vídeótækinu sem var stöðugt í notkun.
Dögunum eyddum við auðvitað í brekkunum, öllum fór mikið fram nema mér (ég held að ég sé orðin of gömul til að bæta einhverju við). Ingi orðinn þrælgóður eftir Frakklandsferðina og börnin auðvitað bæði orðin betri en ég. Krakkarnir byrjuðu í skíðaskóla en hættu síðan að mæta og að minnsta kosti í Sölva tilviki var það mikið gæfuspor. Fyrstu 2 dagana gekk þetta ekkert hjá honum, hann lét sig bara detta út í eitt og harðneitaði að reyna að búa til pizzu (fara í plóg). Um leið og við tókum hann úr skólanum gerðist eitthvað; hann fattaði þetta og þá var ekki aftur snúið. Eftir það brunaði hann niður brekkurnar eins og hann hefði aldrei gert annað. Vildi alltaf vera fyrstur og fór ansi hratt að mati móðurinnar sem skíðaði á eftir honum galandi skipanir um að stoppa og hægja á sér. Að lokum fékk hann nóg, stoppaði og sagði við mig frekar pirraður: "Mamma, viltu hætta að tala við mig, þú truflar taktinn!" Sama dag vorum við að skíða með Gullu og Þorra sem er talsvert vanari en Sölvi og öruggari eftir því en datt eitt skiptið eins og gengur. Sölvi renndi sér upp að honum og sagði við hann þar sem hann lá í snjónum: "Þorri minn, þetta er bara of bratt fyrir þig!" Katla hafði engu gleymt síðan á Ítalíu, finnst skemmtilegast að fara í hopp og hoss og mjóa stíga inní skóginum. Ingi var eini í fjölskyldunni sem treysti sér í svartar brekkur og gerði það með glæsibrag.
Á kvöldin var síðan skipst á að elda fyrir allan hópinn og kom það skipulag mjög vel út, hver dýrindis rétturinn af öðrum galdraður fram. Við ætlum samt að þróa þetta aðeins nánar á næsta ári, svo að við lendum ekki í því að 4 af 6 séu með kjúklingarétti.
Ég átti svo afmæli á fimmtudaginn og var það afar góður dagur. Dekrað við mig á allan hugsanlegan hátt og fékk rosa fínar gjafir. Ég hafði upphaflega hugsað að við myndum elda þann dag en Ingi fékk mig ofan af því og reyndist það góð ákvörðun. Við elduðum svo á föstudaginn og það fór svo klaufalega að ég skar mig í fingurinn ("mamma skar AF sér puttann" sagði litli maðurinn). Af þessum 8 læknum í ferðinni þá var einn með viti, Arnar Guðjóns, sem var með allar græjur með sér, þar á meðal deyfingu og saum, og saumaði 3 falleg spor í fingurgóminn. Ég eyddi afganginum af deginum í að baða mig í samúð og umhyggju vina minna. Einn hinna svokölluðu "vina" þoldi þó ekki athyglina sem ég fékk og af einskærri öfund kastaði hann sér á sturtuhurð úr gleri sem auðvitað smallaðist og rispaði hann aðeins á bringunni. Ókei, það voru reyndar saumuð 7 spor, en það var bara af því að hann grenjaði svo mikið og vildi líka vera saumaður. Í mínum huga mun hann samt alltaf ganga undir nafninu Siggi rispa.
Á kvöldin var kjaftað, sungið, spilað á gítar, horft á klassískar bíómyndir (Sódóma Reykjavík) og kjaftað meira. Úrslitin í söngvakeppninni voru á laugardagskvöldið og fylgdumst við spennt með henni. Það er agalega sætur strákur á leið til Kiev, Martin Stenmarck að nafni (skyldleiki við Ingemar ekki þekktur). Nú er bara að gera upp við sig hvort maður heldur með honum eða Selmu.
Katla átti svo afmæli á mánudaginn, var vakin á hefðbundinn hátt með söng og köku í rúmið. Opnaði alla pakkana áður en hún fór í skólann og var mjög ánægð með allt. Frábært að hafa bæði pabba hennar og afa á afmælisdaginn. Hún ætlar að bjóða nokkrum stelpum hingað á morgun í tilefni afmælisins, vill hafa köku, pizzu og vatnsmelónu.
<< Home