Katla og Sölvi

mánudagur, febrúar 28

6 dagar í skíðaferð!

Best að gera grein fyrir afrekum síðustu daga... hmm... Við tókum rosa vel til á laugardagsmorguninn því það átti að sýna húsið þann dag, eigandinn er sem sagt ennþá að vinna í því að reyna að selja. Alveg mátulega þegar allt var orðið spikk and span (þetta getur ekki verið skrifað svona!) þá ákvað Sölvi að fá sér kakó. Setti smávegis mjólk í bolla, mikið af kakódufti og svo inn í örbylgjuofn í dágóða stund. Svo heyrði ég bara ópin í systur hans: "Mamma, eldhúsið er allt fullt af reyk!!" Það kom svona skemmtileg brunalykt sem festist í öllu þrátt fyrir að við reyndum að viðra af bestu getu. Skildum svo eftir opna glugga og skelltum okkur í bíó áður en fasteignasalinn kom. Ef væntanlegum kaupendum hefur ekki súrnað fyrir augum er ég illa svikin, ég finn ennþá brunalykt núna 2 dögum seinna!
En við fórum sem sagt á Bangsímon og ég varð mjög ánægð að sjá að stóri strákurinn minn er ekki vaxinn uppúr því að verða hræddur á Bangsímon sem eru saklausustu teiknimyndir sem til eru. Við fórum svo og keyptum skíðaútbúnað á bæði börnin; skíði, bindingar, stafi, skó og hjálma. Ég er ennþá í íslenska pakkanum, hélt að við gætum fengið þau strax og skellt okkur á skíði seinna um daginn, en nei ó nei, ég fæ þau á fimmtudaginn.
Í gær skelltum við okkur á þotu með Össa og fjölskyldu, tilvonandi nágrönnum á Herrhagsvägen. Þau komu svo í kaffi sem var nú bara ansi vel heppnað þótt ég segi sjálf frá, nú kom stóri frystiskápurinn að góðum notum. Ég fann í honum bæði kanelsnúða og kanellengju og meira að segja Sörur! Þetta er náttúrlega til háborinnar skammar að það séu enn til Sörur, en ég kenni frystinum um, hann er hreinlega svo stór að það týnist allt innan um afganga sem ég tek með mér í vinnuna og eplin hennar móður minnar. Svo bakaði ég stóran stafla af pönnukökum á pönnunni hennar Imbu sem stendur alltaf fyrir sínu!


Free Hit Counters
Free Counter