Katla og Sölvi

föstudagur, maí 6

Loksins...

... kem ég mér í að skrifa smá. Lengi vel vorum við ekki með neina nettengingu á nýja staðnum, en síðan tókst mér, öllum að óvörum og allra mest sjálfri mér, að netvæða heimilið.
Við erum sem sagt flutt á Herrhagsvägen og afskaplega ánægð með skiptin. Húsið er aðeins minna en í Västerås en alveg nóg fyrir okkur, reyndar fékk Sölvi ekkert herbergi heldur bara horn sem búið er að strengja gardínur fyrir. Hann er samt mjög sáttur. Það eru fjórir íslenskir strákar í hverfinu sem eru allir fæddir 2000 og hann getur hlaupið yfir í heimsókn. Í gærmorgun fór þetta reyndar aðeins yfir strikið hjá honum. Það var frídagur eins og á Íslandi, ég heyrði Sölva brölta á lappir rétt fyrir 7 en aldrei þessu vant kom hann ekki inn til mín, ég heyri að hann vesenast eitthvað, fer svo niður stigann, hleypur yfir stofugólfið og opnar svaladyrnar, á þessu stigi máls gerði ég mér grein fyrir að hann væri á leiðinni út og stekk í eitthvað yfir náttfötin og flýti mér í skó. Hann er nú sprettharður drengurinn og náði talsverðu forskoti og kl. 06.53 vöknuðu allir heima hjá Össa og Gullu við dyrabjölluna, Sölvi mættur í heimsókn til Þorra.
Hann er byrjaður í nýjum leikskóla sem heitir Stenröset, gengur bara vel. Bestu vinir hans heita Rodin og Havar, ekki sérlega sænsk nöfn enda drengirnir innflytjendur eins og við.
Katla er líka alsæl, gengur vel í skólanum sem er bara handan við hornid, mesta lagi 200 metrar sem hún þarf að labba. Þær eru 3 íslenskar stelpur saman í bekk og gerði það þetta allt saman auðveldara. Hún er mest með Guðrúnu Söru systur hans Þorra, hún kemur hérna á hverjum morgni og þær labba saman í skólann. Bekkurinn er nú að æfa leikrit sem er byggt á Pelle Svanslös, verður sýning fyrir foreldrana innan skamms, mikil spenna í gangi.
Við höfum haft góða gesti undanfarið, fyrst komu Gunna og Diddi til að kanna aðstæður fyrir yfirvofandi Svíþjóðarflutninga, eru reyndar að velja á milli Uppsala eða Stokkhólms (er valið ekki nokkuð augljóst spyr ég nú bara...) Síðan kom mamma í nokkra daga og lenti í blíðskaparveðri. Væntanlegir gestir eru tengdó, Bragi, pabbi og maggi og Þóra (fyrirgefðu maggi minn, get allt í einu ekki gert stórt m, opnast alltaf msn-ið, veit einhver hvernig maður lagar það?) Ingi hefur komið mjög þétt undanfarið sem er afskaplega gott, svo er nú ekki nema rúmur mánuður þar til við höfum móðurjörðina aftur undir fótum vorum og hlökkum mikið til að eiga eðlilegt fjölskyldulíf í nokkrar vikur.
Ég reyni að lesa moggann og Fréttablaðið á netinu, helst á launum, næ því flesta daga. Vona að enginn hafi misst af viðtalinu við virðulegan útibússtjóra aðalútibús Landsbanka Íslands um daginn. Það er ekki sama tilfinningin að lesa þetta á netinu, og hvað er með allar þessar auglýsingar? Þær eru hræðilega lengi að downloadast, sérstaklega Bónus-auglýsingarnar og Fréttablaðið er helmingurinn fasteignaauglýsingar á hverjum einasta degi!
Nú er farið að styttast í Eurovision, hér er búið að sýna 2 þætti með Eurovision-spekingum sem rýna í lögin, voru allir mjög hrifnir af íslenska framlaginu og ég fann gamla Gleðibanka-tilhlökkunnartitringinn hríslast niður bakið á mér, sannfærð um að keppnin verði á Fróni að ári!
Við fórum hjólandi niður í bæ í dag, mikið afrek hjá krökkunum, þetta eru örugglega 6 km hvora leið. Sölvi stóð sig eins og hetja á litla hjólinu, trampaði og trampaði, þetta er þrisvar sinnum meiri vinna hjá honum en mér. Hann er ennþá með hjálpardekkin, búið að gera eina tilraun til að fjarlægja þau en hann var ekki alveg að fíla það: "mér þykir ekkert vænt um hjólið þegar það er ekki með hjálpardekk".


Free Hit Counters
Free Counter