Katla og Sölvi

fimmtudagur, maí 19

Að vinna eða ekki vinna Eurovision?

Já, hefst nú hátíðin! Ég er agalega spennt og ég held að við rúllum þessu upp (og þegar ég segi við þá er það bein vísun í íslensku þjóðina, bara svo að það sé á hreinu). Reyndar verð ég að viðurkenna að það kom vænt bakslag í sigurvissu mína þegar ég sá búninginn sem Selma verður í, hvílík HÖRMUNG! Hver hannaði eiginlega þetta appelsínugula stuttbuxnadress og á hvaða lyfjum var viðkomandi? En ég mun ekki láta þetta áfall skyggja á sigurvímu mína og mun hreiðra um mig fyrir framan sjónvarpið í kvöld með bros á vör, poppskál í annarri og kókglas í hinni.
Ég er búin að vera að reyna að fitja uppá snörpum umræðum um keppnina við kollegana í dag, og er farin að halda að ég sé eini Eurovision-nördinn á svæðinu. Tókst einhvern veginn ekki að ná á flug djúpum samræðum um eitt eða neitt sem tengist þessari bráðskemmtilegu keppni.
Annars er mjög mikið skrifað um þessi mál í blöðin, kemur mér mest á óvart síðustu daga að það er farið að ræða um að sænska lagið eigi ekki séns á 10 efstu sætunum. Svíar eiga greinilega mikið ólært af íslenskum frændum sínum í norðri sem eru sigurvissir fram í rauðan dauðann.
Góður dagur í gær. Sölvi byrjaði á nýja leikskólanum (já, hlutirnir gerast hratt á þessum bæ) og leist mjög vel á. Hann er á grænu deildinni með íslensku strákunum og er auðvitað alsæll með það. Ég spurði hvort það væru einhverjar góðar fóstrur og hann svaraði: "jáhá, það er ein laaangbest, hún er svooo falleg!" Þetta lofar góðu, þótt maður missi drenginn um stundarsakir í faðm annarrar konu... Síðan komst það á hreint í gær að ég get byrjað í Uppsala 1. september. Það er auðvitað frábært fyrir mig í alla staði, þótt það sé ekkert stórmál fyrir mig núna að vakna kl. 5-5.30 þá er það allt annað mál þegar það er orðið dimmt og kalt. Fyrir nú utan að þetta er miklu virtari spítali og starfsemin mun víðtækari. Þetta er afleysingastaða til eins árs til að byrja með, en mér heyrist að það gæti jafnvel orðið einhver framlenging á því.
Ingi var hjá okkur um síðustu helgi ásamt mömmu sinni og Svenna. Helgin fór að mestu leyti rólega fram, setið útá palli og sötrað hvítvín, ekki slæmt! Svo drifum við okkur til Stokkhólms á sunnudaginn, röltum um Gamla Stan, tókum svo bát út á Djurgården þar sem ég og börnin fórum á Junibacken en þau hin á Vasasafnið.
Svo kom Bragi bró á mánudaginn, dauðuppgefinn eftir próflestur, lokaprófin í verkfræðinni. Hann er þó búinn að endurheimta fyrri krafta og búinn að skoða allt sem borgin býður uppá fram og tilbaka. Þeir frændur hafa líka brugðið sér saman í bæinn, mjög hentugt að hafa stóra frænda hér á meðan aðlögun Sölva í leikskólanum stendur yfir.
En... ekki dugar að slóra, best að hespa vinnunni af og koma sér í réttu stemmninguna fyrir kvöldið. Góða skemmtun!


Free Hit Counters
Free Counter