Hringnum lokað
Svo að við byrjum á Duran tónleikunum þá voru þeir í einu orði sagt frábærir! Æðið hefur augljóslega verið heldur dempaðra hér um slóðir heldur en á Íslandi, tónleikarnir voru á frekar litlum stað sem tekur aðeins 2000 manns og það skapaði auðvitað gríðar stemmningu, ég var afskaplega lukkuleg með að geta verið aðeins í 3ja metra fjarlægð frá gömlu goðunum.
Hér hefur verið bongóblíða síðustu daga, 25 stiga hiti og glampandi sól hvern einasta dag. Ég var á vakt á laugardaginn, rólegt eins og oft, ég sat úti í sakleysi mínu og las í dágóða stund og endaði sem rjúkandi brunarúst! Það er hins vegar óðum að jafna sig, nú er ég komin með freknur í milljónatali, ég bíð bara eftir að þær renni saman í eina risafreknu, þá verð ég kaffibrún og fögur eins og brasilísk fegurðardrottning.
Nú, svo er ég loksins komin á nýja bílinn og hann stendur sig með stakri prýði. Nú finnst mér hringnum vera lokað; flutt aftur til Uppsala og komin á bláan Volvo skutbíl eins og foreldrar mínir forðum. Ætli þessi endi ævina á sama hátt og sá gamli, vera seldur um borð í rússneskan togara fyrir 12 vodkaflöskur?
Annars er efst í huga mér að ég mun hafa ástkæra móðurjörðina undir fótum mér eftir 2 daga og fæ loks að knúsa restina af fjölskyldunni!
<< Home