Katla og Sölvi

mánudagur, ágúst 1

Sumarfrí

Nú erum við fjölskyldan að pakka niður fyrir stóra ferðalagið okkar sem hefst á morgun og á að standa í 2 vikur (ef við höldum út það lengi og verðum ekki tilbúin til að gefa hvort annað til ættleiðingar). Hættum snarlega við að eyða nokkrum nóttum í tjaldi og var það ákveðinn léttir, sváfum í tjaldi um daginn og þótt það hafi verið yndislegt þá er margt ánægjulegra en að vakna á loftlausri vindsæng með tjaldið fullt af kvikindum af öllum stærðum og gerðum (reyndar var einn fjölskyldumeðlimur sem fannst það gefa ferðalaginu aukið gildi). Ætlum núna að taka lúxusútgáfuna og gistum í hinum og þessum kofum.
Fórum sem sagt í afmælissiglingu um skerjagarðinn með Sölva afmælisbarn, fundum frábæra eyju og tjölduðum þar í lítilli vík, sigldum (er hægt að segja það á mótorbát?) svo heim í blíðskaparveðri daginn eftir og hófumst handa við bakstur fyrir afmælisveisluna sem var haldin með pomp og prakt á laugardaginn. Þar komu saman vinir nær og fjær, það er að segja þeir sem komu á tveimur jafnfljótum héðan úr Herrhagen og svo þeir sem komu keyrandi frá Stokkhólmi. Tókst mjög vel, vorum svo heppin að hægt var að sitja úti allan tímann og var því hægt að loka á öll lætin inní húsinu og fullorðna liðið sat útá palli með hvítvínsglas allan tímann, ljúft! Reyndar var það að einhverju leyti að þakka forláta gashitara sem húsbóndinn fjárfesti í og slær út öllum rafmagnshiturum hverfisins, mun væntanlega sjá til þess að snjómokstur í vetur verður enginn.
Börnin eru öllum stundum með íslensku nágrönnum sínum, í gær voru þau hérna öll 7, mikið glens og grín. Ég fílaði mig eins og alvöru íslenska húsmóður þar sem ég stóð og skólfaði í þau grjónagraut. Það er auðvitað ómissandi fyrir þau að hafa þessa krakka nálægt og mikill samgangur einnig meðal foreldranna.
Við erum líka búin að afreka heimsókn í bústað til vinafólks mömmu og pabba, hann er 2,10 og hún 1,95, svo að við vorum litla feita parið.
En nú er sem sagt ferðalag framundan, best að drífa sig í háttinn. Fyrsta stopp er Gränna og Visingsö.
På återseende!


Free Hit Counters
Free Counter