Katla og Sölvi

sunnudagur, janúar 8

Nýtt ár

Jæja, þá erum við komin aftur eftir áramótaferð til Íslands, allir sem við náðum ekki að hitta fá sérstaka kveðju og loforð um bætta hegðun í næstu Íslandsferð. Höfðum það mjög fínt, náðum að upplifa rigningu, rok, lárétta snjókomu, slyddu, skafrenning og hið sívinsæla slabb. Ótrúlega gott að komast í vetur eins og vetur eiga að vera; skafa af bílnum með bros á vör og raula glaðlegan lagstúf á meðan mokað er frá útidyrunum í stillu og temmilegu frosti. Það er komið skautasvell nánast við húshornið hjá okkur og börnin voru auðvitað ekki lengi að skella sér þangað, við Sölvi ætlum að fjárfesta í skautum hið fyrsta svo að við getum þeyst á eftir heimasætunni. Þetta er hið fínasta svell sem er meira að segja upplýst á kvöldin, hægt að renna sér arm í arm með sínum heittelskaða í rómantísku vetrarljósi (fyrir þá sem hafa áhuga á slíku ....) Í dag var skautaþemanu haldið áfram, brunuðum til höfuðborgarinnar og skelltum okkur á skautasýningu sem er byggð á nokkrum Disney-ævintýrum, mjög flott og skemmtileg sýning. Munaði reyndar litlu að við misstum af fjörinu (sem hófst kl. 15) vegna þess að við sváfum svo lengi, allt í rugli eftir fríið.
Á morgun byrjar svo alvara lífsins á ný; vinna, skóli og nýjar barnapíur. Já, í fleirtölu í þetta skiptið, það eru systkini sem eru búin að taka að sér verkefnið í sameiningu og byrja á morgun. Höfum hitt þau einu sinni, virtust mjög ábyggileg og traust, vonandi er eitthvað fjör í þeim líka. Eins og sannir Svíar spurðu þau auðvitað hvort það væri eitthvað sem börnin mættu ekki borða, ég er ekki frá því að mikilvægustu orðin í sænskri tungu séu Allergi och överkänslighet.
Nú eru að verða komnir 3 mánuðir síðan Sölvi byrjaði nýtt líf og hefur hann ekki hvikað frá nýja lífsmátanum svo mikið sem augnablik síðan. Eins og margir vita þá hefur barnið tekið upp algjört heilsuæði, neitar að borða það sem ekki er hollt og gerir æfingar sem óður maður. Hann borðar auðvitað ekki nammi, vill ekki gos eða ís, ekkert sætabrauð og ekki einu sinni kanelsykur út á grjónagrautinn. Þegar það er fredagsmys hjá litlu fjölskyldunni sitjum við Katla með kók, nammi og samviskubit á meðan litla barnið hámar í sig gulrætur og vínber og skellir sér svo á gólfið og gerir armbeygjur með reglulegu millibili. I blame you, Magnús Scheving!
Ég fylltist eldmóði um daginn og sagði við Sölva að ég ætlaði sko að verða svona dugleg eins og hann að æfa vöðvana og hugsa vel um líkamann. Hann leit hins vegar á mig með svip sem var blanda af fyrirlitningu og meðaumkun, og sagði: "Mamma, þú ert ALLT OF GÖMUL!" Það er gott að einhver sér til þess að maður horfist í augu við raunveruleikann.
Þrátt fyrir að drengurinn sé með öll helstu næringarefni á hreinu þá getur hann aldrei munað hvenær hann á afmæli. "Ehh... 1. desember... eða kannski 7. júní..." Hann er samt með stjörnumerkin á hreinu og tilkynnti um daginn: "Sko ég er ljón, mamma og Katla eru fiskar, pabbi er hrútur og Rannveig er hamstur!" Ég hef reyndar ekki lesið stjörnuspána nýlega, hljómar samt eitthvað undarlega...


Free Hit Counters
Free Counter