Katla og Sölvi

laugardagur, nóvember 26

Óskalistar og fleira

Allt prýðilegt að frétta af okkur, erum óðum að komast í sífellt meira jólaskap. Í dag erum við búin að jólast svolítið; fórum út í skóg að tína köngla og spreijuðum (er mér að förlast eitthvað í stafsetningu?) þá gyllta fyrir aðventukransinn, hengdum upp jólastjörnu í stofugluggan og hlustuðum held ég tíu sinnum á "Gáttaþefur á jólaskemmtun með börnunum" (þið vitið: "Allir hanar gala, vindhanar gala ei, allir lokkar vaxa, eyrnalokkar vaxa ei"), vill svo skemmtilega til að þetta var einmitt uppáhalds jólaplatan mín og í raun sú eina sem ég minnist að hafa hlustað á í æsku. Ég er búin að vera að reyna að pína uppúr börnunum hvers þau óska sér í jólagjöf, gengur ekki sem best.

Sölvi
Hundinn (fæst útí Maxi, fær hann frá systur sinni)
Dýralæknisdót
Hundafjölskyldu (já einmitt)
Engin föt (jú jú, segir mamman)

Því miður fæ ég ekki meira uppúr honum, en á móti kemur að hann er yfirleitt alltaf ánægður með allt sem hann fær.

Katla
Skjaldbaka (ég held ekki)
Framhaldssaga (sem sagt saga með köflum)
Gírahjól
Hundur (over my dead body)
Tóma bók
Náttföt
Geisladiska

Vorum að enda við að horfa á Evrópu söngvakeppni barna, héldum auðvitað með Svíþjóð, sem á einhvern óskiljanlegan hátt enduðu samt í einu af neðstu sætunum. Katla er ásamt þremur vinkonum sínum búin að semja lag sem á að fara í næstu keppni, lagið heitir "Jag har så många frågor om rymden". Þær eru komnar með sporin á hreint og segjast ætla að hafa hljóðnema á andlitinu vinsta megin, annars ruglist dansinn.
Katla spurði mig áðan: "mamma, erum við ennþá að kalla Sölva Sumir?" Ég horfði furðu lostin á hana, "hvað meinarðu?" "Jú þú veist, þú segir alltaf Sumir mega ekki fatta og Sumir mega ekki sjá."
Rósa segir að Sölvi sé alltaf mjög ræðinn og hún er yfirleitt í kasti yfir því sem hann segir. Í gær á leið heim úr leikskólanum sagði hann: "Veistu, amma mín hefur einu sinni skrökvað að mér, hún sagðist hafa verið til í gamla daga." Í framhaldi af því var síðan farið út í langömmurnar: "Veistu, ég á eina langömmu og hún á heima á hóteli." Drengurinn hefur greinilega erft hugarfarið frá langömmu sinni sem er ein jákvæðasta manneskja sem ég hef hitt og væri alveg líkleg til þess að lýsa heilabilunardeildinni á Hrafnistu sem fimm stjörnu hóteli.
Ég sjálf hef frá síðustu skrifum afrekað meðal annars að fara í magadans með hóp af íslenskum stelpum og komst að því að þrátt fyrir gríðarlegan stirðleika að öðru leyti þarf ekki mikið til þess að ístran taki upp eigin tíðni og hristist af öllum lífs og sálarkröftum. Fór einnig í vinnuferð með klinikinni sem átti sér stað á japönsku heilsuhæli þar sem allir fengu afhenta sloppa og inniskó við komu og var ætlast til þess að maður klæddist þessu á meðan dvölinni stóð. Ekki laust við að maður missi virðinguna fyrir yfirlæknum og öðrum háttsettum þegar þeir tipla um með loðnu leggina í inniskóm og kimono. Morguninn eftir voru allir mættir eldsnemma í tíma í sjálfsnuddi þar sem kennt var nudd á eyrnasneplum og fingurgómum. Ég gat hins vegar ekki staðist freistinguna og ákvað að sofa aðeins lengur, verð að sætta mig við vöðvabólguna sem ég hef verið að kljást við í eyrnasneplunum.


Free Hit Counters
Free Counter