Af uppköstum og þorramat
Það hlaut að koma að því að maður skyti sig í fótinn með þessu bévítans bloggi. Katla var leika sér í tölvunni um daginn og kallar allt í einu: "Mamma, ert þú að borða nammi þegar við sjáum ekki til?!!!" Krakkinn var að lesa bloggið!! Hefði aldrei átt að senda hana í skóla.
Heimasætan vaknaði í nótt og þurfti skyndilega að kasta upp, hélt sjálf að hún hefði borðað of mikið í gærkvöldi, en þegar þetta endurtók sig var ljóst að hún var komin með gubbupest. Við erum því búin að vera heima í dag (Sölvi líka, algjörlega að ástæðulausu og það þurfti miklu meira að sinna honum en sjúklingnum; gefa honum að borða sí og æ, horfa á hann gera æfingar og svo vildi hann að við lékum okkur! Hann fer sko í leikskólann á morgun!)
Um helgina var Þorrablót hjá íslendingafélaginu í Stokkhólmi og við Gulla skelltum okkur þangað ásamt nánast öllum íslenska vinahópnum í höfuðborginni, þrátt fyrir að borða ekki þorramat, finnast Ómar Ragnarsson leiðinlegur og kannast ekki við hljómsveitina Kusk frá Hornafirði. Þetta var samt afskaplega skemmtilegt, borðuðum okkur södd og tjúttuðum á dansgólfinu, en mikið óskaplega var Ómar leiðinlegur. Börnin gistu hjá vinum sínum og voru hæstánægð með það, en við Gulla fengum Bed and Breakfast hjá Gunnu og Didda.
Við fórum líka á laugardaginn í nýstofnaðan kirkjuskóla Íslendinga hér í Uppsala, kom í ljós að við Katla kunnum öll lögin eftir að hafa stundað Sunnudagaskólann í Neskirkju á árum áður, kyrjuðum því hæst allra: "B-Í-B-L-Í-A, Biblía!" Prestur Íslendinga í Svíþjóð mætti á svæðið alla leið frá Gautaborg og fræddi börnin um meðal annars Jesú og tilgang jólanna. Minn maður hlustaði af athygli og spurði svo: "Heyrðu, eru jólasveinarnir núna í helgarfríi?"
Hér er heljar orkuátak í gangi, börnin eru komin með Orkubækur Latabæjar í hendurnar og eru að sprengja alla skala hvað varðar stigagjöf (dagurinn í dag verður ekki talinn með enda hefur Katla ekki komið neinu ofan í sig). Þetta er nú meira púlið og ég stend fyllilega við það sem ég hef sagt á öðrum vettvangi: Vona bara Íþróttaálfsins vegna að hann hitti mig ekki í dimmu húsasundi, því ég á nokkur orð ótöluð við manninn!
Nú er farið að styttast í að börnin fari heim, en þau ætla að fljúga heim til Íslands á laugardaginn. Mikil spenna í gangi, ekki síst fyrir flugferðinni, þeirri fyrstu án foreldranna. Sölvi er búinn að lofa að gera allt sem Katla segir honum (eða "Litla mamma" eins og hann segir stundum). Samkomulagið á milli þeirra hefur lagast mjög mikið, eins og glöggir menn hafa eflaust tekið eftir hef ég ekkert tjáð mig um uppeldismálin lengi, enda ekki þörf á að grípa mjög oft inní samskiptin á milli þeirra (ólíkt því sem var). Ég varð samt hálf vonsvikin þegar ég sá vinnubók hjá Kötlu þar sem hún átti að teikna "Det som gör mig arg." Þar hafði Litla mamma teiknað gullfallegan ljóshærðan dreng sem augljóslega var bróðir hennar. En samt, allt á uppleið!
<< Home