Íþróttaálfar í keilu, frænkur í helgarferð og syngjandi mæður


Hér er það enn hinn heilbrigði lífsstíll sem heldur heimilinu og heimilisfólkinu í heljargreipum. Ég laumast til að fá mér nammi þegar ég held að börnin sjái ekki til og hlýt miklar skammir ef upp um mig kemst. "Mamma, mega fullorðnir drekka kók?!!"
Ég var að stríða Sölva í gær og sagðist ætla að troða uppí hann nammi og hella uppí hann kóki. Drengurinn fór bara að hágráta og var óhuggandi við þessa skelfilegu tilhugsun! Hann er allur í æfingunum ennþá og er alveg lygilega sterkur, að minnsta kosti á minn mælikvarða. Ég get ekki einu sinni lagt hann í sjómann þótt ég taki á öllu sem ég eigi, hugga mig við að viðureignin hafi þó endað í jafntefli enda væri ég ekki að segja frá þessu á alheimsnetinu ef 5 ára sonur minn hefði unnið mig í sjómann!
Í dag var "Frábær Fimmtudagur" eins og við köllum þá, ég í fríi eftir hádegi og við skelltum okkur í keilu. Þegar ég kom að sækja Sölva var hann að segja fóstrunni hvað við værum að fara að gera: "Sko, það er svona rennibraut og svo er maður með stóran bolta og hendir honum til að láta allar flöskurnar detta!" Hún skildi auðvitað hvað hann var að meina enda mjög myndræn lýsing þótt hann hafi ekki vitað hvað keila væri á sænsku.
Síðasti fimmtudagur var enn betri en þá kom loksins heimsins besta móðursystir í heimsókn til okkar. Höfðum það afskaplega gott þessa daga sem hún var hér, fórum meðal annars tvisvar á skauta þar sem við systurnar sýndum listir okkar við mikinn fögnuð (okkar sjálfra).
Ég er byrjuð í kór, búin að fara á tvær æfingar og finnst svakalega gaman, hingað til erum við búin að syngja Abba-syrpu og skerjagarðsvals eftir Taube, miklir vinir mínir þeir Björn, Benny og Evert.
Mamma mia, here I go again...
<< Home