Kona einsömul
Jæja, þá eru börnin flogin til Íslands, gekk víst alveg eins og í sögu. Þeim fannst þetta nú ekki mikið mál, að skella sér á milli landa án þess að hafa neinn með sér. Ég verð í brjálaðri vinnutörn á meðan, setti nánast allar febrúarvaktirnar mínar á þessa daga og var að reikna það út að frá sunnudagsmorgni til föstudagseftirmiðdags verð ég 100 klst í vinnunni og 30 í fríi.... Veit ekki hvort ég geri þetta nokkurn tímann aftur, fer eftir hvernig mér líður á föstudaginn. Svo var stelpa sem vinnur með mér að stinga uppá að við skelltum okkur eitthvað út á föstudagskvöldið þar sem við erum báðar barnlausar, þannig að ég verð líklega andlega og líkamlega örmagna þegar ég sæki börnin á flugvöllinn á laugardaginn. Held að ég sé orðin of gömul í svona tarnir, þarf að fá minn 7 tíma svefn. Búin að vera í smá aldurskrísu undanfarið þar sem 35 ára afmælið nálgast óðfluga eins og óð fluga. Leið samt mun betur eftir að ég spurði Sölva um daginn hvað hann héldi að ég væri gömul. Hann hugsaði sig mjög vel um enda mikið í mun að segja enga vitleysu (held að hann hafi séð eftir að hafa sagt að ég væri of gömul til að byrja að æfa!) og sagði svo: "Þú ert alveg eins gömul og ég vil hafa þig!"
Hann kann á kvenfólki lagið, og ætti því ekki að koma á óvart að hann er kominn með kærustu. Ójá, drengurinn segir bara: "jag är kär" og tilfinningarnar virðast vera gagnkvæmar. Sú útvalda heitir Maria og er á bláu deildinni. Hún sendi honum á Valentínusardegi afar fallegt ástarbréf með meðal annars hjartalaga ljósmynd af sjálfri sér, og inní kortinu stóð Maria + Sölvi. Ekki amalegt það! Ekki víst að hún geri sér grein fyrir að hún þurfi að gefa allt nammi og óhollustu upp á bátinn ef hún ætlar að vera í návígi við Sölva. Talaði við hann í gær og sagði hann að það væri svo ógeðsleg lykt af pabba sínum því hann hefði verið að borða súkkulaði! Á föstudaginn langaði hann svo að fara með eitthvað gómsætt í leikskólanum og bjóða krökkunum í kaffitímanum. Fór sigri hrósandi með hrökkbrauðspakka og dreifði stoltur á milli þeirra. Ég er einhvern veginn ekki sannfærð um að það hafi vakið mikla lukku....
<< Home