Óþarfa hreinskilni og argasti dónaskapur
"Sigga, ert þú ekki búin að bæta á þig? Ég hélt að þú værir ólétt þegar ég sá þig í morgun!" AARRRGGG!!! Ég hef ekki húmor fyrir svona athugasemdum og kann ekki að meta hreinskilni og dónaskap! Viðkomandi er reyndar upprunninn frá öðru menningarsamfélagi en er búin að búa í Svíþjóð í 20 ár og ætti að vita að svona segir maður ALDREI við NEINN, hvað þá nýfráskilda konu í andlegu ójafnvægi sem þar að auki er nýorðin 35!!! Bið ég þá frekar um falskt hrós og hvíta lygi...
Við erum komin heim frá Trysilfjellet sem reyndist okkur mjög vel; nægur snjór, frábærar brekkur, þónokkuð margar mínusgráður, afburða skemmtilegur félagsskapur og góður matur. Krakkarnir náðu að bæta sig enn meira í skíðakunnáttunni og ég er ekki frá að mér hafi farið örlítið fram líka. Katla er orðin algjörlega sjálfbjarga, þær vinkonurnar fóru sjálfar í lyftur og brekkur eins og þær hefðu aldrei gert annað og fannst mest gaman að fara í hólabrekkur. Ég neitaði að fara með þeim aftur eftir að hafa prófað þetta einu sinni, ef mannslíkamanum væri ætlað að skíða í hólabrekkum værum við útbúin með öflugri fjöðrun í öllum liðamótum (og snjórinn myndi falla í hóla). Ég er bara komin á þann aldur að nú þarf að fara að varast samfallsbrot og almenna hrörnun, held mig því við eðlilegar brekkur.
Já, nú er maður orðin 35 ára, hvorki meira né minna. Það átti sér stað í skíðaferðinni þar sem vinirnir sungu, trölluðu, færðu mér gjafir og báru mig á höndum sér í tilefni dagsins. Síðan á heimasætan 9 ára afmæli á morgun, mikið um dýrðir þessa dagana. Við Sölvi ætlum að syngja fyrir hana í fyrramálið en hún kaus að fá pakkana frekar þegar hún kæmi heim úr skólanum. Hún er nefninlega alltaf svo þreytt á morgnana og lengi að öllu. Við erum búin að komast að því að það er ýmislegt til í því sem maður hefur heyrt að það sé hægt að sjá persónuleika ungabarna strax við fæðingu. Krakkarnir hlógu sig máttlaus í gær þegar þau heyrðu það að Katla sem er ótrúlega lengi að öllu og getur aldrei vaknað á morgnana hafi ekki viljað fæðast heldur þurft að fá drullusokk á hausinn og vera toguð út, lá svo bara vær og góð og horfði syfjulega á heiminn, á meðan bróður hennar lá mun meira á og öskraði eins og ljón fyrstu klukkutímana því hann var svo svangur. Hann er ennþá þannig; sprettur á fætur á morgnana og hrópar: "Ég er svangur! Ég vil fá morgunmat!" Þeim finnst ótrúlega gaman að heyra sögur af sjálfum sér og öðrum þegar þau eiga að fara að sofa :"Mamma, geturðu sagt okkur sögu? Hvað gerði Maggi frændi meira þegar hann var lítill?" (Þar er sko af nógu að taka....)
Sölvi: "Ég meiddi mig í pönnunni!" (panna = enni)
<< Home