Vorið er komið og grundirnar gróa

Jæja, ekki þýðir að láta andleysi og almennt framtaksleysi koma í veg fyrir að það sé bloggað. Hér er komið sumar, eða að minnsta kosti vor. Kosturinn er líka að hér getur maður verið nokkurn veginn viss um að veturinn kemur ekki aftur, ólíkt öðrum löndum sem við þekkjum til, þar sem veturinn getur komið hvenær sem er, öllum að óvörum og aldrei er hægt að ganga frá kuldagallanum almennilega, verður alltaf að vera innan seilingar.
Við fjölskyldan erum formlega byrjuð að hjóla, reyndar þarf ég að brjóta odd af oflæti mínu og fá einhver karlmann til aðstoðar ef ég á að halda áfram hjólreiðum. Var nefninlega að reyna að pumpa í hjólið mitt áðan en það endaði á einhvern óskiljanlegan hátt með því að hjólið varð nánast loftlaus og algerlega óhæft til notkunar....
Við komum frá Íslandi um síðustu helgi, áttum þar góða daga sem fóru að mestu leyti fram í sundi. Vorum í viku og börnin fóru sex sinnum í Vesturbæjarlaugina!
Það var ótrúlega gaman að hitta loksins Tinnu, fallegustu og bestu frænku í heimi (sbr. mynd að ofan). Hittum hana næst við Gardavatn í júnímánuði og hlökkum gríðarlega til!
Nú fer að styttast í að Sölvi kaldi byrji námsferil sinn, ég fór á fund í skólanum í gær og komst að því að hann verður með bæði Þorra og Gunnari Birni í bekk, 3 stórir og stæltir íslenskir íþróttaálfar í 14 manna bekk, er það ekki bara ávísun á einelti og almennan hrottaskap... Reyndar ætla ég að nefna við kennarann að það megi alveg reyna að stía þeim stundum í sundur, Sölvi talar sænskuna með hörðum íslenskum hreim og hefði gott af því að leika aðeins við önnur börn. Eða hvað... við búum auðvitað í innflytjendahverfi, hvort er fallegra að tala sænsku með íslenskum eða Mið-Austurlenskum hreim?
Katla er hress og kát eins og endanær, reyndar með Guðrúnarveikina, en sem betur fer kemur Guðrún tilbaka frá Íslandi á morgun, verða væntanlega fagnaðarfundir.
Ég keypti bara eitt páskaegg handa okkur þremur, börnin voru búin að fá nóg af súkkulaði á Íslandi þessa viku sem þau voru þar. Við vorum afskaplega ánægð með málsháttinn okkar sem hljóðaði þannig: "Gott er að eiga mikinn mat og marga helgidaga". Eins og talað út úr mínum munni!
<< Home