Katla og Sölvi

fimmtudagur, desember 6

Dundað á aðventu

Hmmm... hvað höfum við afrekað síðan síðast? Allt jóladótið (og þá meina ég ALLT, þar með talið jólatréð!!!) fór upp um helgina. Við sáum enga ástæðu til að bíða með þetta... verðum ekki hér á jólunum og um að gera að njóta aðventunnar í botn. Ég er hins vegar alin upp við að tréð færi upp á Þorláksmessukvöld svo að það var óneitanlega undarleg tilfinning að horfa á það inn í stofu 2. desember!
Ég er líka búin að baka yfir 300 sörur með Gunnu samkvæmt venju og það var auðvitað ekki klikkað á föstu punktunum eins og hinni sígildu jólamynd Love Actually.
Síðan settum við saman piparkökuhús núna áðan, tókst bara furðu vel. Jólajólajól...

Glóðaraugað mitt er nánast horfið (já það gengur á ýmsu þegar handlagna húsmóðirin er í ham!) en Sölvi kominn með glóðarauga í staðinn. Það var víst einhver stelpa í 6 ára bekk sem réðst á hann með pinna. Þetta var víst fyrir honum algjörlega óþekkt stúlkukind sem hann hafði aldrei átt neitt sökótt við, en að ósk kennarans gat hann bent á hana (ég sá fyrir svona line-up eins og í bíómyndunum þar sem Sölvi stóð bakvið speglagler svo að hinn grunaði sæi hann ekki, en það er nú ekki víst að þetta hafi verið svo dramatískt).
Mér fannst hins vegar merkileg upplifun að vera svona á mig komin, svíar eru svo dannaðir að það var enginn sem spurði hvað hefði gerst, þrátt fyrir að ég mætti með augljóst glóðarauga í vinnuna. Það var ekki fyrr en ég hafði sjálf orð á þessu og spurði hvort þetta sæist mikið. "Jáhá!" var sagt einum rómi á kaffistofunni. Kannski hafa þeir verið hræddir um að opna fyrir táraflóð og endalausar frásagnir af heimilisofbeldi ef ég yrði spurð!

Sölvi áðan: "Nú er ég búinn að fatta hver er Snorri og hver er Óli!"
Þó fyrr hefði verið segi ég, við erum nú bara búin að þekkja þá hátt á þriðja ár og þeir eru ekki einu sinni það líkir!


Free Hit Counters
Free Counter