Katla og Sölvi

miðvikudagur, nóvember 21

Sudoku-snillingar og sjónvarpsstjörnur

Mér finnst eitthvað svo stutt þar til við flytjum heim. Fæ hálfgert kvíðakast í hvert sinn sem þetta ber á góma, því þótt það sé komið á hreint hvar við munum búa á ennþá eftir að finna draumastarfið (gefur mjög mikið í aðra hönd og krefst lágmarks viðveru...) Mér finnst samt svo stutt í þetta, það tekur því varla að taka til, þrífa bílinn eða hvað þá hengja hluti upp á vegg eins og spegilinn í ganginum sem hrundi niður í gær. Hann fær líklega að standa og halla sér upp að veggnum þar til yfir lýkur!

Sölvi er búinn að uppgötva sudoku, móður sinni til mikillar gleði þar sem hún er algjörlega ofurseld þessum þrautum. Að hugsa sér, að þessar einföldu tölur frá 1 til 9 geti valdið svona miklum heilabrotum og fölskvalausri gleði. Getur ekki verið annað en hollt fyrir líkama og sál!
Vona bara að þetta verði ekki til að draga úr áhuga hans á heimalærdómi, það er hreinlega ekki á það bætandi. Það er annað en systir hans sem elskar að gera lexur og er iðulega búin með vikuskammtinn á þriðjudögum (eina ástæðan fyrir að þetta klárast ekki á mánudögum er að þá er svo mikið að gera hjá okkur; dans, badminton, karate og innebandy, púff!)

Við stefnum að því að gerast heimsborgarar eina ferðina enn um helgina og í þetta skipti munum við heiðra Lundúnaborg með nærveru okkar. Bragi bró gegnir nefninlega hlutverki starfsmanns Landsbanka Íslands í London um nokkurra mánaða skeið og því upplagt að skella sér í skreppitúr til hans. Við hlökkum mikið til, ætlum á Lion King söngleikinn á laugardaginn og sjá svo bara til, ég hef alltaf skemmt mér afar vel í þessari borg hingað til, en reyndar hafa börn aldrei verið með í för hingað til, hlýtur að vera hægt að finna eitthvað skemmtilegt fyrir þau líka.

Ég var í sjónvarpinu í gær. Það er nefninlega raunveruleikaþáttur á TV3 sem heitir Sjukhuset og er tekinn upp á Akademiska. Einn af aðalpersónunum sem fylgst er með er lýtalæknir sem ég kannast ágætlega við og hef af þeim sökum einstaka sinnum slysast til að vera með þegar tekið hefur verið upp. Veit ekki til að ég hafi sést fyrr en í gær, og ef marka má þetta stutta atriði, þá er mitt helsta framlag til læknavísindanna að sitja flissandi á kaffistofunni og drekka te... Spurning hvort ég þurfti ekki að ráða fagmanneskju til að hjálpa mér að bæta ímyndina eftir þetta áfall!


Free Hit Counters
Free Counter