Hitt og þetta
Það er afar ljúft að vera í sumarfríi, ekki hægt að segja annað. Svaf til 11 í morgun, man ekki hvenær ég svaf svona lengi síðast. Var reyndar á tangókvöldi fram á nótt í gær (já þið heyrðuð rétt, tangókvöldi!) með Gunnu ásamt systur hennar og mági sem eru forfallnir tangódansarar. Við vorum einungis komnar til að horfa á og dást að hinum þrælflinku dönsurum, alls ekki til að dansa sjálfar enda held ég að ég tali fyrir hönd okkar vinkvennanna beggja þegar ég segi að hæfileikar okkar liggi annars staðar en í að dansa tangó. Þónokkuð mikið af myndarmönnum á svæðinu en ég þorði ekki svo mikið sem að líta í áttina til þeirra af einskærrum ótta við að vera boðið upp. Gunna slapp ekki svo vel, þrátt fyrir að hafa forðast allan augnkontakt eins og heitan eldinn og þar að auki verið komin úr skónum kom aðvífandi maður í bakarabuxum (gengur framvegis undir nafninu Bakaradrengurinn) og dró hana með harmkvælum út á dansgólfið. Ég keyrði svo heim í nótt í 22 stiga hita og svarta þoku, sá varla fram fyrir bílinn og var næstum búin að missa af Uppsala því ég sá ekki skiltin og engin ljós frá sjálfri borginni. Frekar óhugnarlegt.
Sölva gengur vel með lesturinn, las reyndar sjampó í staðinn fyrir lím áðan, greinilega stundum verið að reyna að giska þótt ég kjósi að kalla það sjálfsbjargarviðleitni. Talandi um lestur þá er Katla ekki viðræðuhæf þessa dagana, liggur bara og les Harry Potter frá morgni til kvölds. Ómögulegt að ná sambandi við hana nema að maður fyrir algjöra tilviljun hitti á kaflaskipti eða greinarskil. Í dag kláraði hún bók númer 5 sem er algjört afrek að mínu mati, að minnsta kosti gafst bókaormurinn móðir hennar upp á þeirri bók sökum lengdar, minnir reyndar að ég hafi klárað hana fyrir rest en gæti ekki þótt líf mitt lægi við sagt um hvað hún var.
Við erum komin frá Legoland sem var mjög skemmtilegur garður í alla staði, greinilega verið lögð áhersla á skemmtanagildi garðsins síðan ég var þarna síðast árið 1978, hellingur af rússibönum og öðrum gleðitækjum. Börnin skemmtu sér auðvitað konunglega og mamman og amman ekki síður.
Katla með HC Anderssen sem tók á móti okkur við innganginn.
Það má ekki gleyma því að hvíla sig. Voguðum okkur meira að segja inn í ljónabúrið...
Og svo ein að lokum af okkur Lindu einhvers staðar á Laugaveginum, get því miður ekki staðsett okkur nánar en það. Mér skilst að við séum næst að fara á Hvannadalshnjúk, set reyndar smá fyrirvara á það hvað mig varðar, veit ekki alveg hvort það sé "my thing" að traðka snjó uppámóti í 10 klukkutíma...
<< Home