Ferðalög

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum (netinu...) virðist ég hafa komið til 9% landa á jörðinni og ég sé ekki betur en að þau einskorðist við aðeins 2 heimsálfur. Auðvitað skömm og hneisa að vissu leyti, en sé mig tilneydda til að benda á að á meðan sumir hafa þvælst um algjörlega ábyrgðarlausir um heiminn þveran og endilangan hef ég fætt og alið 2 börn og þar að auki helgað veiku fólki lífi mínu og bjargað mannslífum með annarri á meðan ég fletti ferðabæklingum með hinni. Það er ekki hægt að gera allt. Er það ekki verðugt markmið að hafa komið til Portúgal, Írlands og Belgíu fyrir fimmtugt? Þá er ég að minnsta kosti búin með Vestur-Evrópu.
Katla er komin heim úr Vindáshlíð, var afskaplega ánægð með dvölina, kynntist fullt af skemmtilegum stelpum og vann sér það helst til frægðar að sigra í broskeppni, var sem sagt með breiðasta brosið, hvorki meira né minna en 10 sentimetrar. Ég er auðvitað yfir mig stolt enda dettur mér ekki í hug neitt háleitara markmið í lífinu en að brosa breitt, því eins og alþjóð veit þá breytir bros dimmu í dagljós...
<< Home