Katla og Sölvi

fimmtudagur, maí 3

Vér mótmælum!

Búin að skila framtalinu fyrir árið 2006. Þar sem ég stóð í einhverri drive-in röð til að geta skilað (að sjálfsögðu á síðustu stundu, annars væri ekkert gaman að þessu) fékk ég allt í einu mjög sterklega á tilfinninguna að það væri verið að hafa mig að fífli. Það þarf enginn að segja mér að "Stóri Bróðir" viti ekki nákvæmlega hvað ég hef haft fyrir stafni síðasta árið, hvort ég er búin að vera í stórkostlegum fasteignaviðskiptum eða byggt við húsið mitt. Starfsfólk skattstjóra skemmtir sér örugglega konunglega og skálar í kampavíni fyrir þessum vitleysingum sem sitja sveittir við að fylla inn í einhverja dálka eftir kúnstarinnar reglum. Ég læt ekki hafa mig að athlægi lengur, ég er hætt að taka þátt í þessu rugli! Eða kannski held ég bara áfram að sýna andstöðu mína með því að skila á miðnætti síðasta skiladaginn, það er gott á þetta pakk!
Ekki komið neitt plan fyrir helgina. Við kvenmennirnir verðum að finna okkur eitthvað stelpulegt að gera því eini karlmaður heimilisins er á leið í helgarferð til Íslands. Og til að kóróna þetta allt saman er stuðningsfjölskyldan á leið til London, hvað eigum við eiginlega af okkur að gera? Var ég ekki annars búin að segja frá stuðningsfjölskyldunni? Það var þannig að Guðrún Sara var að segja mömmu sinni frá einhverri stelpu í bekknum þeirra sem færi stundum til stuðningsfjölskyldu og spurði í kjölfarið hvað það væri eiginlega. "Jú", svaraði Gulla, "sko það er þannig að mamma hennar Emmu er ein með börnin og svo vinnur hún svo mikið og til að það verði auðveldara fer Emma stundum til annarrar fjölskyldu." "Jááá, ég skil.... erum við þá svona stuðningsfjölskylda fyrir Kötlu og Sölva?" Er aðeins farin að geta brosað út í annað út af þessu, en fannst þetta sko alls ekki fyndið fyrst!


Free Hit Counters
Free Counter