Katla og Sölvi

föstudagur, apríl 20

Sumar og sól

Gleðilegt sumar allihopa!
Reyndar varð mér um og ó í morgun þegar ég dró frá svefnherbergisglugganum og sá mér til mikillar undrunar snjókorn falla mjúklega til jarðar... Og í gær voru veðurguðirnir líka í stríðnisskapi á sjálfan sumardaginn fyrsta; úrhellisrigning, þrumur og eldingar og á tímabili meira að segja haglél! Allir nema Katla drifu sig í bíó enda ekki hægt að vera úti í þessu ofsaveðri, við Sölvi fórum á Mr Bean (sem er stórkostlega fyndinn þegar maður er 6 ára...) og KBS á rómantíska gamanmynd. Þegar ég var að leggja bílnum og undirbúa mig andlega fyrir að stökkva út í hellidembuna tók ég ekki eftir því að aftan að bílnum kom hjólandi stelpa á fullri ferð. Í þann mun sem ég svipti upp hurðinni hjólaði hún beint á hana, flaug af hjólinu og kútveltist á rennandi blautu malbikinu. Ég fékk auðvitað hland fyrir hjartað og skundaði til hennar á meðan ég í skyndi reyndi að rifja upp helstu atriði skyndihjálpar (A-airway, B-breathing, C-circulation, D-hmm...voru það ekki einhver lyf?)) en hún stóð á fætur eins og ekkert hefði í skorist, baðst innilega afsökunar og hjólaði svo gegndrepa áfram. Hjúkk...
Katla fór hins vegar í bekkjarpartý á meðan og skemmti sér konunglega, sagðist hafa dansað við að minnsta kosti 6 stráka og boðið þeim öllum upp sjálf. "Haha, systir mín er komin með kærasta!" hrópaði karlmaðurinn á heimilinu en sjálf vildi diskódísin ekki viðurkenna neitt.
Börnin fengu línuskauta í sumargjöf og voru óskaplega ánægð, þeystust á þeim fram og tilbaka um götuna, ég tók ákvörðun á þeirri stundu um að grafa upp mína línuskauta og fara á þá í fyrsta skipti í 5 ár, sjáum til hvernig það gengur.
Hlaupaátakið hefur orðið fyrir smávægilegu áfalli. Frú Guðlaug hlaupadrottning með meiru er að drepast í hnénu og hefur þetta leitt til þess að ég hef ekki heldur farið út að hlaupa í vikunni. Hins vegar höfum við fram að þessu tekið gífurlegum framförum og vart átt orð til að lýsa ánægju okkar með þetta allt saman. Erum komnar í sms-hlaupahóp með Gunnu og Guðrúnu í Stokkhólmi sem gengur út á það að senda sms með árangri eftir hvert skipti sem hlaupið er. Hef þær samt grunaðar um svindl, þær hlaupa alltaf svo langt og eru aldrei þreyttar samkvæmt skeytasendingunum, hins vegar erum við Gulla ekkert nema heiðarleikinn uppmálaður og greinum skilmerkilega frá hverju spori...
Kristín Björg stendur sig eins og hetja við barnapössun og þrif, Sölvi sagðist ætla að kenna henni sænsku en komst svo að því að hún kunni jafn mikið og hann ("Kristín Björg, þetta er bil. Bil. Og þetta er mjölk. Mjölk.") Í gær var ég svo að lesa einhverja uppskrift og spurði hana hvort hún vissi hvað þistilhjörtu væru á sænsku og þegar því var svarað neitandi heyrðist innan úr stofu: "Sko! Ég vissi að þú kynnir ekki allt á sænsku!"


Free Hit Counters
Free Counter