Katla og Sölvi

mánudagur, janúar 22

Loksins, loksins....

...er snjórinn kominn! Við Gulla héldum uppá þennan merkisatburð með því að fjárfesta í gönguskíðum í gær. Gönguskíðakeppnin-sem-er-eftir-einungis-mánuð var farin að valda okkur afar miklum áhyggjum og í hvert sinn sem við hittumst var önnur hvor sem spurði: "Hvað eigum við að gera? Eigum við að hætta við?" En svo kyngdi niður snjó á laugardagskvöldið þar sem við sátum saman yfir kvöldmatnum og þá var ákveðið að fara í skíðainnkaup í býtið daginn eftir.
Mér sýndist sölumanninum ekki lítast á blikuna þegar Tvær úr Tungunum komu arkandi inn og sögðust aldrei hafa stigið á gönguskíði fyrr, en hins vegar vera að fara að taka þátt í 30 kílómetra langri keppni á gönguskíðum... Við fórum svo sigri hrósandi út með nýju græjurnar okkar og eftir að hafa skellt skíðunum á eldhúsborðið og borið á þau eftir kúnstarinnar reglum var komið að frumrauninni. Skakklöppuðumst út í skóg og renndum okkur fram og til baka ásamt sonum okkar, komumst að því að við vorum miklu betri en við áttum von á og mikið hrikalega var þetta gaman! Því miður er ég á vakt núna í kvöld, annars væri ég á skíðum núna, ekki spurning. Ég keypti líka gönguskíði fyrir Sölva og hann var hæst ánægður, djöflaðist á þeim út um allar trissur.
Iss... þetta Vasalopp verður pís of keik...
Sölvi fór í afmæli til bekkjarbróður síns í gær sem er svo sem ekki í frásögur færandi, nema hvað að afmælið byrjaði klukkan 9.45! Algjörir snillingar þessir Svíar, í hvaða landi öðru þarf maður að stilla vekjaraklukkuna á sunnudagsmorgni til að missa ekki af barnaafmæli?


Free Hit Counters
Free Counter