Fyrsta helgin í aðventu

Hér má sjá hluta af afrakstri helgarinnar, vil taka það fram að bakaradrengurinn var ekki nakinn við baksturinn, var hins vegar búinn að klína grænu skreytingarefni í öll fötin sín og var rekinn úr.
Þetta var nú aldeilis ekki það eina sem var bakað um helgina. Ég bakaði um það bil 70 stykki af hinum ómissandi saffransbrauðum og á laugardaginn var árlegur (hlýtur að vera orðinn það núna eftir 2 ár...) Sörubakstur okkar Gunnu með öllum sínum föstu liðum: býsnast yfir að "þetta er nú eitthvað öðruvísi en í fyrra", amk. 2 búðarferðir til að ná í ýmislegt sem vantar, smakk og hrós á báða bóga fyrir ótrúleg bragðgæði og frábæran árangur, og endað á að horfa á hina klassísku jólamynd Love Actually. Gunna kom auðvitað með fjölskylduna með sér og Guðrún, Eyrún og Vaka (loðna dóttirin) komu líka og gistu þannig að það var fjölmennt og afar góðmennt í kotinu. Sölvi lánaði herbergið sitt að vanda, það er loksins tilbúið og erum við afskaplega sátt við útkomuna, sjálfur sagðist hann ekki getað hugsað sér fallegra herbergi.
Annars var hann veikur um helgina greyið, ég var því heima á föstudaginn og komst ekki á vaktina um kvöldið, fannst þetta fallega gert af drengnum að fórna sér svona til að mamman gæti verið heima á föstudagskvöldi og horft á Idol-úrslitin í faðmi barna sinna í stað þess að þjást á vaktinni með blóðuga sjúklinga með hor og slef. Hann vaknaði svo á laugardaginn og tilkynnti að hann væri orðinn frískur. Ég vildi þó mæla hann fyrst og sagði síðan að mælirinn segði að hann væri ennþá með hita. Fullur einlægni og grafalvarlegur svaraði drengurinn: "Hann hlýtur að vera að grínast!"
Katla dreif sig hins vegar út um morguninn og tíndi köngla og greinar sem voru svo spreyjaðar með gulli og búinn til þessi líka fíni aðventukrans. Hún var líka að syngja á aðventutónleikum í kirkjunni í gær og við erum öll komin í heilmikið jólaskap.
Innsigluðum svo helgina á því að kaupa okkur sushi í gærkvöldi, reyndar ekki fyrir yngsta fjölskyldumeðliminn en Katla sem aldrei hefur þolað lax er núna farin að grátbiðja um hráan lax og heldur því fram að hún elski sushi og fái vatn í munninn við tilhugsunina! Hún er reyndar ekki ein um það...
<< Home