Kvenlegur undirtónn og fiskpinnar
Þá er enn ein helgin liðin og bara 5 dagar í Mallorca! Hlökkum geðveikt til....
Frú Edda dvaldi hérna um helgina ásamt ófæddu barni sínu og skemmtum við vinkonurnar okkur við kvenlega iðju, svo sem að borða góðan mat, spjalla vel og rækilega, prjóna og svo auðvitað versla. Frúin er ákveðin í því að stoppa lengur næst, þetta var alltof stuttur tími í búðunum. Hörður Kvaran var svo örlátur að láta okkur í té alla vildarpunktana sína og gistum við því á lúxushóteli í miðborg Stokkhólms seinni nóttina. Afskaplega skemmtileg helgi og kvenlegi undirtóninn réð svo sannarlega ríkjum.
Sölvi er nokkuð sáttur í skólanum, virðist reyndar ekki þurfa mikið til: "Í dag var besti dagur lífs míns, það voru fiskpinnar í matinn í skólanum og ég fékk mér 26 sinnum á diskinn!" Mér skilst á kennaranum að hann sé sá í bekknum sem nýtir matartímana best, borðar mest og situr lengst. Hins vegar var ég að spyrja hann hvernig krökkunum gengi að læra stafina en þá varð hann mjög leiður á svip og sagði: "Ég er ömurlegastur...." Samkvæmt kennaranum er það þó alls ekki rétt hjá honum og hún vildi ekki að við færum í eitthvað átak hérna heima. Kemur allt með kalda vatninu....
Um daginn sagði ég (að mér fannst hressilega en kannski hefur þetta verið mæðulegt að hans mati) að nú ætlaði ég að drífa í að þrífa húsið, en þá sagði litli engillinn minn: "Nei mamma, þú skalt setjast út í sólina og bara hvíla þig og ég skal þrífa húsið". Fékk ekki að koma inn fyrr en löngu seinna, þá var hann búinn að ýta öllum húsgögnum frá veggjunum og þrífa vandlega með tusku á bakvið, gott að áherslurnar eru misjafnar á heimilinu, ég er meira svona í því að þrífa það sem sést, finnst það alveg nóg....
Nú eru þau bæði byrjuð í íslenskukennslu í skólanum hjá honum Gretti íslenskukennara sem öllum foreldrum finnst vera dáldið undarlegur en börnunum finnst hins vegar mjög skemmtilegur. Það gengur ennþá nokkuð vel að skilja þau eftir tvö saman hérna á morgnana, Katla fylgir "elsku litla bróður sínum" í skólann og skrifar á þar til gerðan lista hvenær hann verður sóttur, kemur svo að sækja hann þegar hún er búin og þau bíða svo heima þar til ég kem heim úr vinnunni. Afskaplega gott plan í alla staði!
<< Home