Sorgardagur
Já, það geta ekki allir dagar verið góðir dagar. Gærdagurinn var samt mjög góður, fórum í 7 ára afmæli til Hlyns Einarssonar og svo í náttfatapartý hjá Gunnu og Didda með spólu, prjónaskap, popp og kók. Komum svo heim í dag og þá lá fjórði fjölskyldumeðlimurinn undarlega kyrr á botni fuglabúrsins, hefur hingað til fengið massívt kvíðakast og flögrað um búrið í algjörri geðshræringu í hvert sinn sem einhver nálgast. Skýringin var því nokkuð augljós, hún var einfaldlega farin á vit feðra sinna og flýgur nú um áhyggjulaus á himnum. Eigandinn varð auðvitað viti sínu fjær af sorg og var óhuggandi lengi vel, en dreif sig svo hlaupandi um hverfið til að bera út fréttirnar. Við grófum hana í garðinum og Sölvi sagði: "Bless að eilífu Pála, við söknum þín." Honum leið samt aðeins betur þegar okkur datt í hug að hún væri líklega hjá langafa núna.
Ég er ennþá að reyna að jafna mig eftir hörmungarvakt sem ég var á fyrir nokkrum dögum, svaf nánast ekki neitt, og þá er ekki skemmtilegt að vera búin að vinna daginn fyrir og þurfa einnig að vinna daginn eftir. Þetta veldur tvímælalaust ótímabærri öldrun og almennri vanlíðan. Sölvi spurði í dag af hverju ég hefði ekki bara haldið áfram að vera flugfreyja, maður ætti kannski að athuga hvort búningurinn passar enn.
Vil svo að lokum minna á 3ja kommenta regluna, hef verið alltof eftirgefanleg með hana undanfarið....
<< Home