Sumarfrí - seinni hluti
Þá erum við loksins mætt aftur til Herrhagen, afar ljúft að vera úti að leika í stuttbuxum og bol (í sandölum og ermalausum bol eins og í hinu sígilda lagi þið vitið: Á Spáni er gott að djamma og djúsa, diskótekunum á, Hey!) Búin að hafa það mjög gott á Íslandi undanfarið, ég í 2 vikur og börnin í heilar 6 vikur.
Sölvi hélt uppá 6 ára afmælið sitt með pompi og prakt í síðustu viku, fékk meira að segja tvær veislur, eina á Hólavöllum og hina á Sigríðarstöðum í Útey (ehemm, gæti verið búið að breyta nafninu, hvað veit ég....) Hann spurði mig á leiðinni í flugvélinni: "Mamma, þegar ég verð 7 ára, hvaða dag á ég þá afmæli?" Hélt sem sagt að dagsetningin myndi breytast með hverju afmæli en ég gat glatt hann með því að hann þyrfti ekki að leggja annan afmælisdag á minnið en 27. júlí, enda nýbúinn að læra þá dagsetningu!
Pála sem átti að þjóna hlutverki grimma varðpáfagauksins í fjarveru okkar hefur eitthvað aðeins misskilið fyrirmælin og er búin að kroppa mestallt veggfóðrið af inni hjá Sölva, næst þegar við bregðum okkur burt ætla ég að "gleyma" að láta nágrannana fá lykil og vonast til að fuglinn .....ist á meðan.
Afrek so far:
- leika, leika og leika aðeins meira, mest við Margréti og Gunnar Björn en Margrét ætlar einmitt að gista hér í nótt
- innkaupaferð til að minnka tómahljóðið í ísskápnum sem hefur varla verið opnaður síðan 10. júní nema þegar Jóhanna braust inn um daginn og stal hvítlauk
- líkamsrækt dagsins: slá blettinn (og raka!)
- bjór og grillaðar pylsur hjá Jóhönnu og Gísla
- ganga frá ótrúlega miklu dóti sem við drösluðumst með frá Íslandi (þurftum samt að skilja slatta eftir...)
Á morgun koma svo Guðrún og Þorri og verða þar væntanlega fagnaðarfundir, sérstaklega þar sem Snorri og Óli skelltu sér foreldralausir til Íslands og því engir leikfélagar í næstu húsum (það er að segja íslenskir, við leikum ekki við svía...)
Stefni að öflugu bloggi í fríinu, þær örfáu góðhjörtuðu sálir sem af einskærri góðsemi lesa ennþá þetta vesældarblogg geta því búið sig undir mikinn leiðindalestur, því hápunktar tilverunnar hérna hjá okkur eru afar fábrotnir.....
<< Home