Mánudagur til mæðu.... en samt mjög góður því Katla er komin aftur!
Jæja þá eru kosningar víst yfirstaðnar á Íslandi, get ekki sagt að ég hafi séð neitt um þær í sænskum fjölmiðlum, en það er kannski ekki alveg að marka þar sem ég hef aðallega legið í rúminu og horft á Friends alla helgina, afspyrnu lítið um afrek síðustu daga. Fór reyndar á föstudagskvöldið út að borða og í bíó med Gullu, sáum Da Vinci Code, allt í lagi svosem en get ekkert sérstaklega mælt með henni nema gegn svefnörðugleikum, að minnsta kosti svaf ég drjúgan part úr myndinni. Hverjum datt í hug að Tom Hanks væri sjarmerandi?
Vígðum pallinn um daginn, standandi med drykk í hönd, síðan þá hefur ekkert gerst, engar grillveislur eða gítarspil fram á nótt, skömm að þessu. Hann er samt alveg frábær, bætist heilt herbergi við húsið og er þar að auki 40 cm stærri en pallurinn hjá Jóhönnu og Gísla (HA HA!)
Á laugardaginn var okkur boðið í sumarbústaðinn til vinafólks mömmu og pabba, einnig kallað Langa Parið. Þar var grillað, róið, veitt (án teljandi árangurs), hoppað á trampolini, farið í gufubað og stokkið allsber út í ískalt vatnið. Við mamma tókum nú ekki þátt í svona vitleysu eins og þessu síðastnefnda en Sölvi hélt uppi nafni Hólavallaslektsins og stakk tánum í. Hann eignaðist þarna nýja vinkonu sem heitir Eira (systir hennar heitir Auga.... nej jag bara skojar) og þau smullu þvílíkt saman.
Katla er búin að vera á Íslandi síðan á fimmtudag, skellti sér í helgarferð til pabba síns og skemmti sér víst konunglega. Hún flaug hingað heim í dag og var sótt af ömmunni út á völl, gekk víst eins og í sögu. Hún er búin að panta 3ja rétta kvöldverð á eftir sem mun samanstanda af blönduðum ávöxtum a la Latibær í forrétt, spaghetti Bolonese í aðalrétt og eplaeftirréttur ömmu Kriss í eftirrétt. Best að drífa sig heim í herlegheitin og knúsa Kötlukrúttið sitt....
<< Home