Svei mér þá.....
.....held barasta að sumarið sé komið.
Við fórum sem sagt til Malmö um helgina og áttum mjög góða ferð þangað, vorum í heila fjóra daga. Góður matur, skemmtilegur félagsskapur, rauðvín, bjór, Tívolí í kóngsins Köbenhavn, sund og bongóblíða allan tímann. Fórum með lest alla leið, sem var afskaplega þægilegt, við gátum lesið, sofið, borðað og leikið okkur af hjartans lyst á leiðinni.
Það var mjög fyndið móment þegar við vorum á röltinu í miðborg Malmö, þar sat maður á bekk og spilaði á harmonikku og safnaði klinki. Sölvi spurði hvort hann mætti fá pening og ég lét hann hafa eitthvað smáræði. Þá labbaði hann beinustu leið yfir torgið og að gamalli fínni frú með perlufesti um hálsinn sem sat á bekk og naut sólarinnar. Hún varð auðvitað eins og eitt stórt spurningarmerki í framan þegar Sölvi rétti henni 2 krónur og 50 aura, en við hin hlógum okkur máttlaus úr fjarska. "Sölvi minn, af hverju varstu að gefa konunni peninginn?" "Ég hélt að hún ætlaði að fara að syngja!"
Var að enda við að skila af mér prófunum eftir að hafa legið yfir þessu langt fram á nótt og gefið einkunnir. Það var mér mikill léttir að ekkert af "börnunum mínum" skyldi falla. Ein var ansi tæp og reyndar gæti ég verið barnið hennar, hún er fædd 1954, greinilega aldrei of seint að fara í læknisfræði.
Amman kom í gær og verður með yfirstjórnina næsta mánuðinn, nú get ég farið út að djamma á hverju kvöldi, liggaliggalá! Það er ósköp gott að fá einhvern til að dreifa álaginu aðeins, verst að nú hef ég ekki lengur neina afsökun fyrir að nenna ekki að hreyfa mig, alltaf mjög góð þessi með tímaleysið...
"Ída, hvað vinnur þú?"
"Ég er sjúkraþjálfari."
"Já, ert þú svona kona sem passar sjúklingana þegar mamma mín er ekki í vinnunni?"
<< Home