Katla og Sölvi

fimmtudagur, maí 4

Sól sól skín á mig

15 stig og sól í dag, spáð 20 um helgina....
Við erum á leið til Malmö um á morgun, brunum með lestinni beint eftir vinnu og ætlum að dvelja fram á þriðjudag í (gerum við ráð fyrir) góðu yfirlæti hjá Ídu og Tóta. Erum mjög spennt.
Þessi vika hefur verið með eindæmum róleg. Ég er að sjá um læknanemana um þessar mundir og er einmitt að fara að leggja fyrir þau próf í fyrramálið, vona að það þyki hvorki of erfitt né of létt og auðvitað vil ég alls ekki að neinn falli.
Í gær laumaðist ég meira að segja í bæinn á vinnutíma og keypti mér nokkrar spjarir, garanterað til að létta lundina. Reyndi að sigta út eitthvað straufrítt, Katla tilkynnti mér um daginn: "Mamma, þú straujar aldrei!" Fannst þetta greinilega til háborinnar skammar. Svo dreif ég mig aftur í vinnuna í viðtal hjá yfirlækninum sem endaði með smávegis launahækkun og loforði um fastráðningu! Til að halda uppá þetta ákvað ég að skrópa í kórnum og hjóla með stelpunum í píanótíma, síðan var planið að ég myndi skokka og Sölvi hjóla á meðan þær væru að spila. Þessi hlaupatúr endaði þó í blóðbaði þegar Sölvi hjólaði fram af brekku og á stein. Tilvonandi háls-, nef- og eyrnalæknirinn var fljótur að setja greiningu á vandamálið og sá að einungis var um nefblæðingu að ræða, klemmdi fyrir nasirnar á barninu með annarri og veifaði forvitnum lýðnum með hinni. Við röltum svo í rólegheitum tilbaka, blóðug frá toppi til táar, og ég sagði að þetta hefði nú verið alveg hræðilegt. "Nei, en veistu mamma, þetta var ekki eins slæmt og hjá Ron Weasley, hann gubbaði sniglum!" Já, það er gott að vita að einhver hafi það verra, jafnvel þótt það sé aðeins sögupersóna úr Harry Potter.
Já, nú er sem sagt planið að fara að hlaupa. Eitthvað verður maður að gera. Um daginn var kall með nefblæðingu hjá mér (þið sjáið að þetta er algengt vandamál enda er nefið mikilvægasta líffærið...), hann sagðist hafa komið fyrir nokkrum mánuðum líka en þá hefði ung stúlka tekið á móti honum. Jæja hugsaði ég en varð þó óneitanlega fyrir vonbrigðum þegar ég sá í sjúkraskránni að unga stúlkan var ég. Það hljóta að vera takmörk fyrir því hvað maður getur látið á sjá á nokkrum mánuðum....


Free Hit Counters
Free Counter