Djammhelgin mikla
Magnúsi Scheving hefur verið velt úr sessi sem aðal átrúnaðargoðinu, nú eru það bara hinir finsku þungarokkarar Lordi sem blíva, Sölvi er búinn að klippa út allar myndir sem hann hefur fundið í blöðunum undanfarna daga og veggfóðra ísskápinn okkar með þeim. Þeir eru svo KÙL!!!
Systir hans sat hins vegar með grátstafinn í kverkunum eftir undankeppnina og syrgði Sylvíu Nótt sárt. Þetta var hin besta skemmtun hjá okkur hinum svona þegar við vorum búin að jafna okkur eftir sjokkið, það var púað bæði fyrir og eftir! Ég held meira að segja að sumir Svíar hafi fattað að þetta var bara på skoj, en ég verð þó að viðurkenna að mér varð ekki um sel þegar ég sá forsíðu Aftonbladet á föstudaginn: Íslenski keppandinn ásakar Carolu um kynlífssvindl!
Vid horfðum á undankeppnina í góðu yfirlæti hjá Össa og Gullu, grilluðum og gáfum lögunum stig eftir kúnstarinnar reglum. Á föstudaginn var klinikfest í vinnunni, mjög skemmtileg veisla þar sem við Össi slógum í gegn með íslenskum söng og fólk skemmti sér konunglega langt fram á nótt. Svo á laugardaginn var okkur boðið í Evróvision/innflutningspartý til Örnu og Einars, æðislegt nýja húsið og yndislegt fólk sem skemmti sér mjög vel yfir keppninni, fengum síðan þann mikla heiður að gista í nýja gestaherberginu hjá Sunnu og Sigurði. Þetta var sem sagt djammhelgin mikla, langt síðan ég hef skemmt mér tvö kvöld í röð (held að þetta hafi líka verið í fyrsta skipti sem ég hef farið þunn í Ríkið).
Katla er á leið í helgarferð til Íslands á fimmtudaginn, hlakkar mikið til og ætlar í sund á hverjum degi. Við Sölvi finnum okkur eitthvað til dundurs á meðan ásamt ömmunni, þurfum til dæmis að vígja nýja pallinn sem hefur risið á ofurhraða á síðustu dögum. Já, þetta er heljarinnar bygging, vantar bara þakið, verður víst að bíða þar til byggingarleyfi fæst og það getur tekið marga mánuði skilst mér...
<< Home