Kona í neyð
Þegar maður kemur út á bílastæði á sunnudagsmorgni með dökka bauga undir augunum eftir 24 klst vakt, þar að auki ennþá þreyttur og með harðsprerrur í maganum eftir hlátrasköll í afar skemmtulegu matarboði á föstudagskvöldið, þá finnst manni eiginlega lágmark að það sé ekki sprungið á bílnum, ekki satt? En þá er ekki um annað að ræða en að breytta upp ermarnar og hefjast handa. Lendir madur þó fljótlega í vandræðum við að losa varadekkið sem er kirfilega fest undir heljarinnar bassaboxi sem mér fannst nú frekar eiga heima í rauðum straumlínulaga sportbíl. Þá eru góð ráð dýr. En.... maður er nú ekki fæddur í gær, þar að auki með margra ára háskólanám að baki og IQ yfir 100. Ég mundi skyndilega eftir því að ég var í efnislitlum hlýrabol undir lopapeysunni, flýtti mér að fækka fötum og viti menn! 30 sek síðar birtist þessi líka handlagni maður sem ákvað í skyndi að mitt vandamál væri mun brýnna heldur en systur sinnar sem lá dauðvona á lungnadeildinni og stóð til að heimsækja. Ég vil taka það fram að auðvitað kann ég að skipta um dekk, en þetta er augljóslega auðveldasta og hreinlegasta leiðin. Ég stóð þarna á hlýrabolnum og brosti mínu blíðasta á meðan bjargvætturinn lá undir bílnum og reddaði þessu öllu saman. Verkefni dagsins í dag verður svo að finna dekkjaverkstæði, en ég ætti nú að geta ráðið við það!
<< Home