Katla og Sölvi

fimmtudagur, ágúst 10

Síðustu sumarleyfisdagarnir



Jæja, þá erum við komin aftur til meginlandsins, búin að fara í sturtu og skola sandinn úr hárinu, var ekki vanþörf á því. Þetta var frábær ferð, erum reyndar dáldið brunnin öllsömul en það var alveg þess virði. Eyjan sem við fórum á heitir Utö og er syðst í skerjagarðinum, frábærar strendur, skógarstígar og sveitastemmning. Leigðum hjól og hjóluðum um allt, fórum í minigolf, út að borða, vaða í sjónum og veiða engisprettur. Sem sagt eitthvað við allra hæfi (mér fannst best að liggja á ströndinni og lesa bók, var að klára Flugdrekahlauparann, hrikalega er það góð bók, mæli eindregið með henni!) Um hálfátta leytið í gærkvöldi tókum við okkur smá pásu í minigolfinu því einhver þurfti á klósettið, þegar við komum í herbergið ákváðum við að leggjast aðeins upp í rúm og lesa Harry Potter, en það fór ekki alveg sem áhorfðist því við vöknuðum 12 tímum síðar, ennþá í sundfötunum og með ókláraðan golfleik á bakinu.... Svona getur maður orðið þreyttur af mikilli útiveru, þetta er kannski eins hollt eins og sögur fara af.
Við sóttum afann á flugvöllinn áðan og urðu þar fagnaðarfundir. Ég fer síðan til Íslands á morgun bara rétt yfir helgina til að vera viðstödd þann merkisatburð þegar tvíeykið Snædal-Kristinsson verður eitt, og hlakka mikið til. Svo byrja ég að vinna á mánudaginn, hef varla hugsað um vinnuna síðustu fjórar vikurnar og get ekki sagt að ég hlakki til þótt mér finnist gaman í vinnunni, krakkarnir verða hins vegar í fríi í viku í viðbót og verða í góðu yfirlæti hjá afa sínum.
Læt fljóta með myndir af stemmningunni á Utö til að styrkja mál mitt, frábær eyja í alla staði!


Free Hit Counters
Free Counter