Haustönnin hafin

Ok, ég er búin að vinna úr tölulegum upplýsingum skoðunarkannannarinnar (púff, erfitt orð...) og niðurstaðan er sú að ég er búin að koma á fót persónulegri heimasíðu eingöngu fyrir mig á barnaland.is, leyniorðið er herrhagen. Framvegis verður því einungis minnst á börnin á þessari síðu.... en myndahornið mun halda sér, að minnsta kosti fyrst um sinn.
Nú á ég engin leikskólabörn lengur, bara skólakrakka... Skólinn byrjaði í gær með pompi og prakt, Katla glaðvaknaði fyrir 7 og hristi mig, var svo afskaplega spennt. Var meira að segja tilbúin þegar Guðrún Sara kom, það er teljandi á fingrum annarrar handar hversu oft það hefur gerst, mesta furða hvað þær eru ennþá góðar vinkonur. Sölvi skveraði nýju skólatöskunni á bakið og þrammaði af stað þessa 100 metra sem eru í skólann, með móður, föður og móðurafa í humátt á eftir. Honum leist vel á þetta allt saman, þau eru bara 14 krakkar saman í bekk (þar af 3 íslendingar) og kennarinn lofar góðu.
Brúðkaupsvertíðin er búin í bili, lauk með afar skemmtilegu brúðkaupi þeirra Ídu og Tóta, og var ekki laust við að ég fyndi fyrir móðurlegu stolti því það var eiginlega ég sem kynnti þau (ok... reyndi að vísu lengi vel að fá Ídu ofan af þessu rugli, en ákvað svo að hún yrði bara að læra af eigin mistökum, og leyfði þeim að byrja saman í friði... held að það hafi verið með betri ákvörðunum sem ég hef tekið um ævina...) Mæli með því fyrir alla sem fara í svona helgarferðir og þá sérstaklega í brúðkaup, að kjólnum, skónum, tannburstanum og snyrtidótinu sé pakkað í handfarangur, því það er ekki gaman þegar taskan manns kemur ekki fyrr en brúðkaupið er byrjað. Það er samt alltaf hægt að redda öllu ef maður á góða að, takk Kristín Björg og Þóra!
<< Home