Katla og Sölvi

miðvikudagur, ágúst 16

Nýkomin og rétt ófarin


Ég var á Íslandi um síðustu helgi, gæti alveg hugsað mér að lifa svona lífi; vera hér í miðri viku, gleypa í mig visku og öðlast reynslu í starfi, fljúga svo til Íslands á föstudögum og skemmta mér þar um helgar (helst í brúðkaupum!) og vera mætt í vinnu hérna úti á mánudagsmorgnum. Síðustu helgi var sem sagt brúðkaupið þeirra Sunnu og Sigurðar Yngva, óskaplega skemmtilegt í alla staði, góður matur, fallegt og skemmtilegt fólk (sbr. mynd!), glæsilegar ræður og dans fram eftir nóttu. Svo verður instant replay um næstu helgi því þá ætla Ída og Tóti að ganga í það heilaga og auðvitað lætur Sigríður sig ekki vanta!
Börnin eru hress og kát eins og venjulega, gátu ekki beðið lengur eftir því að byrja í skólanum og fengu því að byrja á fritids, hæstánægð með það. Svo byrjar skólinn á mánudaginn og það er mikil spenna hjá litla manninum, spurði mig í gær með áhyggjuróm: "mamma, getur maður verið rekinn úr skólanum?"
"Úff", sagði hann í dag við afa sinn, "ég var næstum búinn að pissa í mig í skólanum í dag, gat ekki losað beltið, en svo gerði ég bara svona" og svo sýndi hann hvernig hann hafði náð að troða typpinu upp úr buxnastrengnum og reddað málinu þannig (get ímyndað mér að sitthvað hafi farið útfyrir klósettið en það er aukaatriði því ég þarf ekki að þrífa það...). Afinn spurði af hverju hann hefði ekki bara rennt niður buxnaklaufinni og reddað málinu þannig, en þá varð Sölvi þvílíkt svekktur: "Oohhh, ég hefði getað gert þannig!"
Við Sölvi skelltum okkur til Stokkhólms í gær og aðstoðuðum Gunnu og Didda við flutningana, þau eru búin að kaupa sér æðislegt raðhús, frábært að öllu leyti nema það er ekkert nær Uppsala en gamla húsið... Við mæðginin tókum vel á því, má vart á milli sjá hvort okkar er sterkara!
Arna og Einar Gunnar eru orðin stoltir þriggja barna foreldrar, eignuðust enn einn soninn seint á föstudagskvöld, innilega til hamingju með drenginn kæru vinir, hlökkum hrikalega til að fá að koma í heimsókn!

Og svo smá skoðanakönnun í lokin:
Finnst lesendum bloggið, sem ætlað var fyrir fréttir af börnunum, vera farið að snúast of mikið um móðurina?
Finnst lesendum of mikið af því góða þegar myndir fylgja hverri færslu?


Free Hit Counters
Free Counter