Katla og Sölvi

miðvikudagur, september 6

Tímamótablogg

Undur og stórmerki, þetta er hvorki meira né minna en hundraðasta færslan á þessari afar skemmtilegu og ekki síður áhugaverðu síðu, get ekki annað en hreykt mér af þrautseigjunni í sjálfri mér, láta aldrei deigan síga, alveg sama hvort maður hefur frá einhverju að segja eða ekki....

Allt gott af okkur að frétta, um helgina var hin árlega krabbaveisla hjá þeim heiðurshjónum Sunnu og Sigurði hinum nýgiftu. Þau hjón hljóta eitthvað að vera að þróa aðferðirnar við krabbaveiðarnar því þeir smakkast betur og betur með hverju árinu sem líður. Þarna var fjöldi manns saman kominn og eins og í fyrra gefin út yfirlýsing um að allir sem legðu eitthvað að mörkum yrði boðið aftur að ári. Ég stóð sveitt og skrældi kartöflur allan eftirmiðdaginn og bjó til kartöflusalat handa öllu liðinu, tel mig því nokkuð örugga um boð á næsta ári.
Katla er hætt í píanóinu. Þetta var svoddan kvöl og pína fyrir stúlkugreyið að það var ákveðið að hún fengi að hætta, ætlar að vera í heimakennslu hjá móður sinni í staðinn, sjáum nú til hvernig það gengur.... Hún ætlar samt að halda áfram í kórnum og leikfiminni og er þar að auki byrjuð í dansi, hún fer bara að slaga uppí meðalfjölda áhugamála hjá börnum á Íslandi. Sölvi segist aldrei ætla að læra á hljóðfæri, varð auðvitað vitni að gráti og gnístran tanna hjá systur sinni í hvert sinn sem minnst var á píanóið. Hann ætlar hins vegar að halda áfram í leikfiminni og móðir hans sá auglýsingu um fótbolta fyrir hans aldur, mun reyna að plata hann þangað. Og sjálf er ég byrjuð aftur í kórnum, en þar með eru mín afrek upp talin.
Maggi litlibró á afmæli í dag og fær afmælisknús yfir hafið frá okkur þremur. Stórmerkilegt hvað það er hægt að vera unglegur og glæsilegur og halda sér vel og eiga samt 29 ára gamlan litlabróður....
Jæja, er á vakt, best að fara að vinna fyrir þessum himinháu launum sem ég er með....


Free Hit Counters
Free Counter