Haustfrí

Og í raun byrjaði ferðin ekkert sérlega vel heldur, börnin voru farin til Íslands á undan mér og ég ætlaði að skella mér til Stokkhólms í verslunar- og skemmtiferð á föstudeginum, gista hjá Gunnu og svo beint út á völl. Það fór þó ekki betur en svo að það sprakk hjá mér á hálfgerðri hraðbraut þegar ég var rétt ókomin, reyndi lengi vel að ignorera hávaðann og hina augljósu tilfinningu um hvernig ástandið væri en varð þó að lokum að játa mig sigraða og stöðva bílinn útí kanti. Það sem ég lærði síðast þegar sprakk var að losa varadekkið og reyndist það leikur einn í þetta skiptið. Hins vegar hefur enginn sagt mér að það skipti máli hvar tjakkurinn er settur.... Var hrikalega ánægð með mig þar til ég áttaði mig á því að ég var búin að gera einhverja meiriháttar gloríu, sprungna dekkið komið undan og varadekkið komst ekki undir, gat ekki tjakkað bílinn meira upp því tjakkurinn var á vitlausum stað og stálið krumpaðist bara saman í staðinn fyrir að bíllinn lyftist upp. Reyndi að ná í alla karlmenn sem ég þekki en þeir voru ýmist með slökkt á símanum, skyndilega unavailable eða ráðlögðu mér að leysa málið með því að fara úr einhverri flík og bíða eftir að einhver myndi stoppa.... Þegar þarna var komið sögu lá ég á hnjánum á malbikinu, tárin runnu í stríðum straumum á meðan ég hugsaði öllum sem þutu fram hjá í fínu bílunum sínum þegjandi þörfina. Að lokum stoppaði þó þessi líka yndislegi maður og ég gat tekið gleði mína á ný! Hafði meira að segja engin áhrif á mig þegar hann leit undir bílinn og sagði með sínum undurfagra arabíska hreim: "Ojojoj, hvað ertu búin að gera??"
En nú erum við sem sagt komin aftur, í gær var bekkjarkvöld hjá Sölva með alþjóðlegu ívafi, við mættum með flatkökur með hangikjöti (sem kláruðust!) og börnin tróðu upp og sungu "Krummi svaf í klettagjá" og "Krummi krunkar úti". Sölvi neitaði reyndar að vera með af því að hin vildu ekki syngja "Svarti Pétur ruddist inn í banka (hesmaþúsmamesma...)"
Nú er næst á döfinni að mála hans herbergi. Ég hélt að við værum sammála að einn veggur yrði blár, restin hvítir og svo keyptum við veggfóðursborða með neðarsjávarmynstri. Nú hefur hins vegar komið í ljós að hann sér fyrir sér borðan á miðjum veggnum, blátt fyrir neðan og þar ætlar hann að mála fríhendis fiska og annað tilheyrandi, grænt fyrir ofan þar sem eiga að vera pálmatré og fínerí, og svo loftið blátt með stjörnum. Ó mæ god... þetta er aðeins ofar minni getu... Ætla að reyna að draga þetta aðeins á langinn og sjá hvort hann gleymir því. Um helgina koma Ída og Tóti og þá þjónar herbergið hans hlutverki gestaherbergis þannig að ég kaupi mér smávegis gálgafrest þannig.
Sölvi spurði mig um daginn: "Mamma, hvernig veit maður hvenær maður á afmæli? Velur maður bara einhvern dag sem er laus?" Hélt sem sagt að það væri enginn annar sem ætti afmæli sama dag og hann... dálítil vonbrigði...
<< Home