Tímaskortur og skipulagsleysi

Af hverju lærir maður aldrei af reynslunni? Af hverju fer ég ALLTAF of seint á fætur á morgnana, finnst ég samt hafa NÓGAN tíma þar til ég er orðin ALLTOF sein, næ ALDREI að borða morgunmat og kem of seint á hverjum EINASTA morgni? Merkilegt....
Börnin skelltu sér í helgarferð til Íslands og til pabba síns um helgina, meira hvað þessi börn eru alltaf á ferð og flugi. Voru afskaplega ánægð með ferðina, hittu Tinnu frænku sem er víst heimsins mesta krútt og eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er það bara staðreynd. Þau fóru á fimmtudaginn eftir hádegi og ég leyfði Sölva að koma með mér í vinnunna fyrir hádegi, hann er búinn að vera að suða um þetta heillengi og nú var ágætis tækifæri, ég var bara með verklegt próf fyrir læknanemana og þau fengu meðal annars að spreyta sig á að skoða í eyrun á drengnum sem stóð sig eins og hetja. Hann stóð sig líka eins og hetja í gær þegar hann fór til tannlæknis, lá grafkyrr og gapti heillengi. Eftirá var ég að hrósa honum fyrir hvað hann hefði verið duglegur en þá sagði hann: "en veistu mamma, ég get verið miklu duglegri, þetta var mitt ömurlegasta". Jæja góði....
Svo líður ekki á löngu þar til við birtumst öll þrjú á Íslandinu góða, komum í lok október og verðum í rúma viku. Það hefur sína kosti að vera í vaktavinnu sem er greidd út í fríum, afskaplega þægilegt að geta tekið frí af og til!
<< Home