Katla og Sölvi

sunnudagur, október 15

"Við vunnum!!!"

.... hrópaði Sölvi sigri hrósandi þegar hann kom heim af fótboltaæfingu í dag. "Það var keppni og mitt lið skoraði 25 mörk og hitt liðið skoraði ekkert!" "Nú frábært, skoraðir þú eitthvað?" "Já, öll!" Amman sem hafði fylgt drengnum á æfinguna treysti sér ekki alveg til að staðfesta þetta, en ég sé enga ástæðu til að rengja frásögnina. Sé fyrir mér glæstan frama á knattspyrnuvellinum, er ekki örugglega til landslið fyrir 6 ára og yngri?
Hef eytt helginni í ýmis verk sem seint verða talin kvenleg: losa frá gólflista, taka niður gardínustangir, skrúfa draslið kringum innstungurnar af, fjarlægja veggfóður af veggjum (aaarrrgggg, óþolandi iðja) og mála að lokum veggina. Það var sem sagt svefnherbergið mitt sem fékk yfirhalningu og henni er ekki lokið enn, því er nú ver og miður. Ég veit að pabbi verður sorrí, svekktur og sár að heyra að ég hafi gert þetta án hans þar sem hann er nú væntanlegur innan tíðar, en veit að hann tekur gleði sína á ný þar sem ég get tilkynnt hér með að það eru tvö önnur herbergi á biðlistanum.
Það kvenlegasta sem ég hef afrekað um helgina er að passa Örnólfsbörnin þrjú í gærkvöld og nótt, skil ekkert í fólki að vera að kvarta yfir því hvað það er erfitt að eiga mörg börn, það er ekkert mál að vera með 5 börn (og eina ömmu þar að auki). Guðrún Sara er reyndar nánast flutt inn, fór reyndar heim til síðan áðan en hafði þá ekki komið þangað síðan eftir skóla á föstudaginn, þær eru óaðskiljanlegar blessaðar stúlkurnar.
Á morgun er ég á leið til Malmö á kúrs í andlitsbrotum og kem aftur á þriðjudagskvöld, afar hentugt að mamma gat tekið sér frí og komið til að hugsa um börn og bú á meðan. Ég þarf reyndar að vakna kl. 4 til að ná vélinni sem fer 6, hefði átt að fara í kvöld í staðinn, hvað var ég að spá?
Búin að skrá mig í 30 km skíðagöngukeppni (aftur: hvað var ég að spá???), hljómaði sem mjög góð hugmynd á þeirri stundu en nú eru komnar verulegar vöflur (vöbblur, vöfflur...?) á mig. Þarf akút að koma mér í form og læra á gönguskíði. Börnin eru mjög spennt og fyrsta sem þau sögðu var "hvað er í verðlaun?" Ég sagðist ekki vita það, enda yrði ég bara fegin ef ég næði að klára þessa 30 km á þeim 5 klukkustundum sem maður fær til þess, en þau urðu mjög hneyksluð: "Jú mamma, þú getur alveg unnið!" Þau gera sér greinilega enga grein fyrir alvarleika málsins, móðirin er í engu formi og hefur aldrei stigið á gönguskíði fyrr. Allar ábendingar um æfingar og tæknileg atriði vel þegin!


Free Hit Counters
Free Counter