Katla og Sölvi

þriðjudagur, nóvember 28

Það húmar að

Sá um daginn frétt í lokalblaðinu hér að fulltrúar sveitafélagsins eru á leið til Íslands til að læra af mistökum íslendinga við skipulagningu strætisvagnaleiðakerfis í Reykjavík. Það er greinilega greypt í íslensku þjóðarsálina að reyna að láta gott af sér leiða, jafnvel þótt það sé með því að leyfa öðrum að læra af klúðrinu sínu...
Helgin fór í hitt og þetta. Tókum allt veggfóðrið af herberginu hans Sölva (svarið er nei, ég læri ekki af mistökunum...) og mála það síðan. Verkinu er reyndar ekki alveg lokið en mun klárast á næstu dögum. Versta er að þetta þarf eiginlega allt að gerast í skjóli nætur því eigandinn vill ólmur hjálpa til sem er auðvitað gott og gilt, en vissa hluti vill handlagna húsmóðirin gera sjálf.
Reyndar er eiginlega alltaf dimmt. Mér skilst að það hafi snjóað aðeins á meðan við vorum á Íslandi fyrir nokkrum vikum, en síðan þá hefur ekkert snjóað og það dimmir bara sífellt fyrr á daginn. Svíar eru búnir að bíta það í sig að vetrartími sé agalega sniðugt fyrirbrigði, færa sem sagt klukkuna aftur um klukkutíma sem þýðir að það er bjart á morgnana þegar allir eru í stressi að koma sér í vinnuna og taka ekki einu sinni eftir að það sé orðið bjart, en í staðinn er farið að dimma um þrjú á daginn og um það leyti sem ég kem heim er orðið kolbikasvart. Mistök myndi ég kalla þetta, frekar að færa klukkuna í hina áttina, þá gæti maður kannski gert eitthvað skemmtilegt eftir vinnu. Og enn á eftir að dimma meira, hvernig endar þetta? Myrkur og rigning, nóg til að æra óstöðugan, og jafnvel stöðugan. Þyrfti bara rok til viðbótar, þá væri þetta klassískt íslenskt vetrarveður.
Á laugardagskvöldið var okkur Sölva boðið í mat á eigin heimili, Katla og Guðrún Sara tóku sig til og elduðu 3ja rétta máltíð og buðu fjölskyldunum. Matseðillinn hljómaði þannig: Forréttur - hráskinka og melóna, Aðalréttur - Ferskur kjúklingur Kötlu (sumum varð nú um og ó, "ætli hann sé nokkuð hrár?") og Eftirréttur - klesst súkkulaðikaka með mandarínum og ís. Heppnaðist allt afar vel og fóru allir saddir og sælir til síns heima.
Nóg í bili...


Free Hit Counters
Free Counter